139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í ræðu hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar í gær kom fram eftirfarandi, með leyfi frú forseta:

„… það er prýðilega starfhæf ríkisstjórn í landinu og það stendur ekki til að láta einhverja pörupilta og stráka komast upp á milli stjórnarflokkanna.“

Þegar þessi ummæli féllu, frú forseti, beið ég eftir því að gerð yrði athugasemd. Annaðhvort áttu þessi ummæli við um hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson sem hafði beint fyrirspurn til hæstv. ráðherra og það finnst mér alls ekki viðeigandi — hann er hvorki pörupiltur né strákur, hann er reyndar karlmaður — eða þá að þetta á við um meiri hluta flokksráðs Vinstri grænna sem samþykkti ályktun sem var til umræðu. Þessi ummæli bera ekki vitni um mikla virðingu hæstv. fjármálaráðherra fyrir lýðræði í sínum eigin flokki þegar hann gefur honum svona langt nef og segir að þeir sem samþykktu þessa ályktun á flokksráðsfundi hans eigin flokks séu pörupiltar og strákar.

Mér þætti gaman að sjá hvað gerðist ef hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, léti sambærileg ummæli falla um ályktanir landsfundar Sjálfstæðisflokksins. (HHj: Er hann ekki áreiðanlega á móti …?) Ég er ansi hræddur um að það mundi heldur betur hvína í þingsölum. Þetta er ekkert annað en lítilsvirðing við lýðræði og uppbyggingu flokkakerfis á Íslandi og mér finnst undarlegt að maður sem hefur snúið 180° frá afstöðunni til ESB, frá afstöðunni til AGS og frá afstöðunni til Icesave skuli ekki hlíta vilja síns eigin flokks sem í öllum þessum málum er afskaplega óánægður með þróun mála. (Gripið fram í.)