139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það gengur sannarlega mikið á í þessu stjórnarsamstarfi. Nú lesum við í blöðum að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu sé í uppnámi. (Gripið fram í: Það er ekki nokkur …) (Gripið fram í: Hvar var …?) Í Fréttablaðinu segir að sá hluti aðildarviðræðna við Evrópusambandið sem snýr að landbúnaðarmálum hafi tafist um nokkra mánuði og að ástæðan sé sú að formaður samninganefndar um landbúnaðarmál hafi ekki fengið umboð til að vinna áætlun um aðlögunarferli ESB samhliða viðræðum.

Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir í yfirlýsingu að það sé ekki sjálfgefið að lögð sé fram áætlun um verkefni sem samningsaðilar hafa ekki komist að samkomulagi um. Það verður ekki betur séð en að sú yfirlýsing hæstv. ráðherra sé í hróplegri andstöðu við minnisblað hæstv. utanríkisráðherra sem lagt var fram í janúar sl. og nýleg ummæli hans í viðtali við Fréttablaðið. Það blasir við öllum sem fylgjast með þessu máli að hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni starfa og tala út og suður í þessu stóra máli.

Nú liggur beint við að spyrja hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hvort hann telji að hæstv. utanríkisráðherra eða hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfi samkvæmt stjórnarsáttmálanum og samkvæmt ályktun Alþingis í Evrópumálum. Ég þekki hv. þingmann ágætlega og trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hann hermi það upp á flokksbróður sinn, hæstv. utanríkisráðherra, að hann fari gegn ályktunum Alþingis. Ég geri ráð fyrir því að hann beini frekar spjótum sínum að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og í ljósi þess spyr ég hv. þingmann hvort hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra njóti trausts hjá honum og þingmönnum Samfylkingarinnar, ekki síst ef hann situr fast við sinn keip. Hefur það komið til tals innan Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) að slíta þessu stjórnarsamstarfi, ekki síst ef fram heldur sem horfir hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra?