139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur mikið verið rætt um Evrópusambandið og hér hefur verið vitnað í viðtal við hv. fyrrverandi þingmann og þingflokksformann Samfylkingarinnar, Þórunni Sveinbjarnardóttur, í Kastljósi í gær.

Ég ætla að vera á svipuðum nótum. Í umræðum um aðildarumsókn að Evrópusambandinu sagði hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir fyrir rúmum tveimur árum, með leyfi forseta:

„Þetta er versti tíminn sem hugsast getur til að óska eftir aðild að ESB. Þjóðin er í sárum, hún er veik fyrir og samningsstaðan er engin.“

Í lok ræðu sinnar sagði þingmaðurinn:

„Umsókn um aðild að Evrópusambandinu er ekkert annað en villuljós í myrkri.“

Mér kemur svo sem ekki á óvart að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sé andvíg aðild að Evrópusambandinu. Það hefur komið fram, m.a. í þessari ræðu sem ég vitnaði til, en þess vegna koma mér aðeins á óvart þau orð Þórunnar Sveinbjarnardóttur í þessu viðtali þegar hún staðfestir það sem mikið hefur verið rætt en enginn hefur svo sem almennilega sagt upphátt áður. Hún segir, með leyfi forseta:

„Þessi ríkisstjórn var meðal annars stofnuð um það að sækja um aðild að Evrópusambandinu, klára það ferli og leiða þjóðina áfram.“

Ég spyr hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur hvort þetta sé satt. Er það satt að þegar Vinstri grænir gengu til stjórnarsamstarfs við Samfylkinguna hafi þeir sætt sig við og samþykkt að þessi ríkisstjórn væri stofnuð um það að sækja um aðild að Evrópusambandinu? Fyrir mér eru þetta ákveðnar fréttir. Hér hefur mikið verið talað um norræna velferð, fyrstu vinstri stjórnina og að þetta hafi meðal annars verið stóru markmiðin í þessu stjórnarsamstarfi. Menn hafa ekki legið á þeirri skoðun að það (Forseti hringir.) hafi líka verið til að halda okkur sjálfstæðismönnum frá völdum. En var það bara þannig, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, var ríkisstjórnin stofnuð um það að sækja um aðild að Evrópusambandinu?