139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

stjórnarsamstarfið -- sala Sjóvár -- nefndafundir -- ESB o.fl.

[11:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég kem aðallega upp vegna þess að mér líkar hálfilla, að ég ekki segi stórilla, við það að hv. þingmenn Framsóknarflokksins komi hér, a.m.k. tveir á þessum sama morgni, og láti að því liggja að utanríkisráðherra fælist það að koma til fundar við þær nefndir sem óska eftir því að hann mæti til þeirra. Enginn utanríkisráðherra hefur komið jafnoft til fundar við utanríkismálanefnd og ég. Enginn utanríkisráðherra í sögunni hefur sjálfur óskað jafnoft eftir því að fá að koma á fund utanríkismálanefndar til að skýra mál sín. Þetta finnst mér algerlega nauðsynlegt að liggi fyrir og mér finnst ekki að hv. þingmenn Framsóknarflokksins eigi að tala eins og þeir gera. Raunar er ég þeirrar skoðunar að þeir eigi heldur að einbeita sér að sínum eigin flokki sem er einmitt út af Evrópusambandsmálinu nú klofinn í rót niður og hefur misst eitt efnilegasta forustumannsefni sitt út af þessu máli. Þar er allt upp í loft, kvennasamtök Framsóknarflokksins hafa eina skoðun og einstakir þingmenn aðra, þannig að ég held frekar að hv. þingmenn ættu að koma til mín og reyna að leita liðsinnis hjá mér til að setja niður deilu um Evrópusambandið í þeirra flokki. [Hlátur í þingsal.] Það hefur mér yfirleitt tekist þegar deilur hafa komið upp og ég býð mig hér með fram sem sjálfboðaliða til að hjálpa Framsóknarflokknum að komast aftur upp á lappirnar í þessu máli.

Varðandi þá skýrslu sem kom fram í gær, rýniskýrsluna, ætla ég að benda þingmönnum Framsóknarflokksins og sérstaklega formanni Heimssýnar á eitt mjög merkilegt atriði sem þar kemur fram. Þar er bókstaflega fallist á það með formlegum hætti að Íslendingar noti þá samningaleið sem þeir hafa ákveðið að fara sem felst í því að laga ekki reglur, ekki lög og ekki stofnanir að Evrópusambandinu fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðslu þegar fyrir liggur jáyrði. Þetta kemur fram svart á hvítu og þurfa menn þá ekki að velkjast í vafa um það hvað hér er á ferðinni. (Forseti hringir.) Þetta vissu þingmennirnir, þeir þora bara ekki í málefnalega umræðu heldur hengja sig í tæknileg atriði sem þeir búa sjálfir til. (Gripið fram í.)