139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[11:21]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að fram kemur í atkvæðagreiðslu og -skýringum stuðningur við þá breytingartillögu sem við fulltrúar minni hlutans í umhverfisnefnd lögðum fram í gær og felur í sér málamiðlun sem virðist vera að skila þessu máli í höfn.

Varðandi efnisinnihald breytingartillögunnar sem við greiðum hér atkvæði um læt ég nægja að segja að hér er gert ráð fyrir að um kæruaðild í málum sem heyra undir þessi lög gildi sambærileg regla og þegar er fyrir hendi í náttúruverndarlögum, lögum um umhverfisábyrgð, nýlegum lögum um Vatnajökulsþjóðgarð og fleiri íslenskum lögum. Við látum sambærilega reglu gilda hér og gildir almennt að íslenskum rétti um kæruaðild á þessum sviðum. (Forseti hringir.) Það að fallið hafi verið frá því að ganga miklu lengra er að mínu mati fagnaðarefni.