139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er eitt af þeim ótrúlegu málum sem við ræðum sem ég hef orðið var við að menn trúa ekki þegar ég hef rætt það við þá. Þetta er frumvarpið sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra Árni Páll Árnason talaði fyrir og mælir svo um, ef það verður samþykkt, að fólki verði óheimilt að vera með erlendan gjaldeyri heima hjá sér lengur en tvær vikur frá lokum ferðar. Í frumvarpinu segir nákvæmlega á bls. 3, með leyfi forseta:

„Þeim hluta gjaldeyris sem keyptur er með vísan í 1.–4. tölulið 2. mgr. og ekki er nýttur í fyrirhugaðri ferð samkvæmt 1. tölulið skal skilað til fjármálafyrirtækis hér á landi innan tveggja vikna frá lokum ferðar. Verði ekki af fyrirhugaðri ferð skal gjaldeyri skilað til fjármálafyrirtækis hér á landi innan tveggja vikna frá því að það liggur fyrir.“

Virðulegi forseti. Ég veit ekki alveg hvað vakir fyrir fólki eða hæstv. ríkisstjórn þegar það er gert ólöglegt eða glæpsamlegt að geyma gjaldeyri heima hjá sér, seðla og klink. Við erum búin að sjá að þessi gjaldeyrishöft, sem voru sett hér á sínum tíma og áttu að vera í nokkra mánuði, hafa gefið mönnum hugmyndina að festa þau enn frekar í sessi og gott betur. Það á sömuleiðis að festa þetta eftirlitskerfi þannig í sessi að ekki verði auðvelt fyrir einstaklinga að búa við það, svo að ekki sé dýpra í árinni tekið.

Ég minnist þess, virðulegi forseti, þegar ég spurði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra á sínum tíma, fyrir nokkrum mánuðum, út í það sem ég hafði séð um gjaldeyriseftirlit Seðlabankans. Það sem vakti athygli mína var bloggfærsla hjá fyrrverandi hv. þm. Jóni Magnússyni lögmanni þar sem hann vakti athygli á því að fylgst væri með og njósnað um hverja einustu erlenda færslu á kreditkortum Íslendinga í Seðlabankanum. Mín fyrstu viðbrögð voru þau að þetta gæti ekki staðist, þetta hlytu að vera ýkjusögur. En eftir að ég var búinn að kanna það fór ég í fyrirspurn við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Ég verð að viðurkenna að ég átti von á því að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra kæmi upp og segði: Hér er of langt gengið. Svona gera menn ekki. Við getum ekki búið við slíkt kerfi, við getum ekki búið við þetta. Það var alls ekki þannig. Hæstv. ráðherra kallaði fram í og fannst ekki vera mikið samræmi í því ef menn vildu ekki evru að þeir vildu síðan bara götótt gjaldeyrishöft líka, eins og hann orðaði það, eins léleg gjaldeyrishöft og mögulegt er. Það var ekki annað að heyra en hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra væri mjög sáttur við þetta.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er einn af þeim stjórnmálamönnum ásamt stjórnmálamönnum í Samfylkingunni sem nota hvert einasta tækifæri til að tala núverandi gjaldmiðil niður og virðast vera mjög sáttir við að úr því að við erum með krónu eigi bara að gera fólki eins erfitt fyrir og mögulegt er. Ég er að velta því fyrir mér hvort það sé virkilega þannig í þessari erfiðu baráttu sem Samfylkingin er í, að troða Íslandi inn í Evrópusambandið, að menn beiti slíkum óyndisúrræðum til að reyna að búa til einhvern valkost og segi síðan við fólk: Já, það þarf að njósna um ykkur í Seðlabankanum. Það þarf að gera það glæpsamlegt að þið séuð með evrur og dollara eða erlend sent heima hjá ykkur. Við ætlum að gera þetta allt saman glæpsamlegt ef þið viljið ekki ganga í Evrópusambandið.

Virðulegur forseti. Það er ekkert samhengi í því þegar hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn leggja málin þannig upp að það sé annars vegar svo stórkostlegt að fara í Evrópusambandið vegna þess að frelsi fólks muni aukast o.s.frv., sem eru að vísu rök sem standast ekki, en ganga hins vegar fram með þessum hætti, sem er í besta falli kjánalegt. Hverjum dettur í hug að lögleiða það að menn þurfi að skila einhverjum dollurum og evrum og hvaða gjaldmiðli sem er, sænskum krónum, (Gripið fram í: Ótrúverðugt.) inn í fjármálafyrirtæki, megi ekki hafa þetta heima hjá sér? Hvernig ætla menn að fylgja þessu eftir svo að ég vísi í hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem talaði um að það væri ekki boðlegur málflutningur að vilja hafa götótt gjaldeyriseftirlit? (Gripið fram í: Það þarf einhvern banabita.) Virðulegi forseti. Þetta er kannski þáttur í þessum sjö þúsund störfum sem hæstv. forsætisráðherra ætlar að búa til. Kannski munu eitt þúsund manns í gjaldeyrislögreglunni banka upp á og kanna hvort einhverjar evrur eða dollarar séu á viðkomandi heimili. Þarna eru kannski komin atvinnuúrræði hæstv. ríkisstjórnar. Ef við ætlum að lögleiða þetta þurfum við ekki gjaldeyriseftirlit, við þurfum gjaldeyriseftirlitsher ef menn ætla að koma í veg fyrir það sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sagði, að það væri ekki boðlegt að hafa götótt gjaldeyriseftirlit. Hann sagði líka, með leyfi forseta:

„Það er líka ljóst að undanskotshættan er umtalsverð, jafnvel í litlum fjárhæðum, og skapast þá veruleg hætta á að menn brjóti stærri fjárhæðir niður í smáar og komist þannig fram hjá gjaldeyrishöftunum.“

Við sjáum í anda að það er náttúrlega gríðarleg hætta á að fólk sem fer kannski nokkrum sinnum til útlanda og er duglegt að safna dollurum og evrum, geti án nokkurs vafa komist upp í nokkrar þúsundir íslenskra króna, jafnvel tugi þúsunda, ef það er rétt hjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að margt smátt geri eitt stórt. Ég tala ekki um ef menn taka sig saman með allar evrurnar sínar og dollarana — einn stigagangur gæti jafnvel komist upp í 100 þús. kr. íslenskar.

Virðulegi forseti. Einhver kynni að segja að bara sé verið að taka einn þátt út, en sá þáttur er mjög lýsandi. Þetta er raunveruleikinn sem blasir við fólki ef þessi lög verða samþykkt. Þetta segir okkur það sem við vissum, að ríkisstjórnin er á rangri leið. Það segjast allir í orði kveðnu vilja aflétta gjaldeyrishöftunum en síðan er farin þveröfug leið. Það er alveg ljóst að ekki þarf að fara mörgum orðum um gallana á gjaldeyrishöftunum, þeir eru öllum ljósir. Það er líka ljóst að því lengur sem þau verða því erfiðara er að afnema þau. Þetta tengist svo sannarlega efnahagslegri uppbyggingu landsins því að hér er verið að banna ýmislegt sem okkur finnst vera hið eðlilegasta mál en tengist því að vera á Íslandi árið 2011. Ég skil ekki af hverju menn nota ekki tækifærið og vinna með þeim sem gerþekkja til til að losa um þessi höft og koma með trúverðuga áætlun til að svo megi verða. Í nefndaráliti Sjálfstæðisflokksins er farið yfir hugmyndir um hvernig sé hægt að gera það og getur vel verið að einhverjum finnist það ekki nógu góð áætlun. Þar segir, með leyfi forseta:

„Heppilegasta leiðin til að afnema höft er sú að ríkið og Seðlabankinn bjóði fram skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum til lengri tíma á móti eignum í krónum sem eigendur svokallaðra aflandskróna vilja koma í aðra gjaldmiðla. Samtímis þarf að tilkynna um afnám gjaldeyrishafta innan skamms tíma — nokkurra vikna eða mánaða. Þá standa kröfueigendur frammi fyrir því að geta valið að skipta á núverandi gengi eða taka áhættuna af því hvort krónan fellur eða hækkar í framhaldinu. Sá sem telur að krónan falli mun væntanlega frekar vilja skuldabréf í erlendum gjaldmiðli og sá sem telur að krónan haldist eða hækki mun væntanlega halda sig við krónubréfin. Að líkindum mun gengið lækka um skamma hríð í kjölfarið því að um leið og botninn á gengi krónunnar hefur verið fundinn í óheftum markaðsviðskiptum hækkar hún fljótt aftur og þá fer allt að vinna með henni. Eftir því sem fleiri trúa því að botninum sé náð og þora að skipta erlendum gjaldeyri fyrir krónur án þess að vera neyddir til þess lengur kemur krónan til með að hækka.

Lífeyrissjóðir eiga töluverðar eignir erlendis. Líklegt er að þeir sjái kauptækifæri í krónum í þessu ferli og geti þannig náð til baka hluta af því tjóni sem þeir urðu fyrir í hruninu. Um leið og krónan kemst í hækkunarferil breytast verðbólguvæntingar og meiri von er til þess að launabreytingar verði hóflegri og raunveruleg verðbólga lægri. Afnám gjaldeyrishaftanna er því ein veigamesta aðgerðin sem þarf til að ná tökum á verðbólgu á næstu árum.“

Síðan segir, virðulegi forseti:

„Frumvarp ríkisstjórnarinnar er ekki áætlun um afnám gjaldeyrishafta heldur er það áætlun um að festa höftin í sessi til langs tíma.“

Nú getur einhver sagt: Þetta er ekki raunhæft, þetta gengur ekki upp. Sömuleiðis geta menn líka sagt að við séum búin að missa af einhverjum tækifærum sem allir töluðu um að væri mikilvægt að nýta. Síðan var talað um að bjóða eigendum aflandskróna, sem eru útlendingar sem eiga krónur, upp á fjárfestingarkosti hér á landi. Við þekkjum það að fjárfesting hefur ekki verið minni hér í 70 ár en núna. Hún er minnst hér í OECD-löndunum ef marka má fregnir undanfarin tvö ár. Allir eru sammála um það í orði kveðnu að hér séu gríðarleg tækifæri þegar kemur að fjárfestingum. Einhver tækifæri hafa jú farið fram hjá okkur en svo sannarlega höfum við enn tækifæri til að bjóða þessum aðilum upp á fjárfestingarkosti. En það vantar hins vegar stefnu og að fylgja henni eftir. Ég sakna þess ef mönnum finnst hugmyndir sjálfstæðismanna ekki vera raunhæfar eða hugmyndir forstjóra Kauphallarinnar, sem hefur talað um þetta, og annarra aðila sem hafa talað fyrir afnámi hafta að menn komi ekki með eitthvað í staðinn. Ef menn eru raunverulega fylgjandi því að afnema gjaldeyrishöftin og hafa frelsi í fjármagnsflutningum milli landa þá hljóta menn að koma með áætlun.

Virðulegi forseti. Jafnvel þó að menn eigi sér engan draum heitari en Ísland fari í Evrópusambandið, sem ég veit að er draumur flestra samfylkingarmanna því að aðra stefnu hafa þeir ekki. (HHj: Allra!) Hv. þm. Helgi Hjörvar kallar „allra“ og ég held að það sé alveg rétt því að samkvæmt síðustu skoðanakönnun eru ekki mjög margir í Samfylkingunni þannig að það er óhætt að fullyrða að þeir hafi allir þá skoðun. Vandinn er sá að það verður erfitt að sannfæra Íslendinga um að skynsamlegt sé að ganga í Evrópusambandið af augljósum ástæðum. Til dæmis mun það án nokkurs vafa þvælast fyrir Samfylkingunni hvað tungumálakunnátta er góð á Íslandi því að Íslendingar geta lesið sig til í erlendum fjölmiðlum, eins og á internetinu, um ástand evrunnar og skuldakreppuna. Þeir þurfa því ekki að reiða sig eingöngu á íslenska fjölmiðla sem sumir hverjir halda uppi stöðugum áróðri um aðild Íslands að Evrópusambandinu og halda frá upplýsingum sem ættu að vera sjálfsagðar öllum þeim sem vilja kynna sér þessi mál. Þarna hjálpar alþjóðavæðingin okkur að taka upplýstar ákvarðanir. Ég mundi ætla og vona að allar líkur séu á því að menn segi nei ef einhvern tíma kemur samningur sem menn greiða atkvæði um.

Það er kannski gott að fá að vita það ef áætlun Samfylkingarinnar, sem ég hef því miður áhyggjur af, er að reyna að búa til eins miklar ógöngur, eins mikil höft og eins miklar hömlur hvað varðar gjaldeyrisflutninga til að geta sagt: Eina lausnin er að taka upp evruna. Það er mjög vond pólitík. Það er mjög alvarlegt ef það er það sem vakir fyrir hv. þingmönnum Samfylkingarinnar og hæstv. ráðherra. Ef mönnum finnst, virðulegi forseti, þetta vera langsótt kenning af minni hálfu þá hvet ég þá til að lesa frumvarpið, t.d. þann kafla sem ég vísaði í um að menn þurfi að skila klinki og seðlum til fjármálastofnana tveim vikum eftir að þeir koma heim, ekki seinna en það. Ég hvet menn til að skoða viðbrögð hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þegar ég spurði hann um njósnirnar á kreditkortunum í Seðlabankanum. Ef menn lesa bara þetta tvennt, það tekur ekki langan tíma, skulu þeir draga eigin ályktanir. Í það minnsta bera viðbrögðin, frumvarpið og svör hæstv efnahags- og viðskiptaráðherra, þess ekki vott að raunverulegur vilji sé til að hafa hér frelsi í fjármagnsflutningum. (SKK: Það er enginn vilji.) Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kallar réttilega fram í: „Enginn vilji.“

Hvernig stendur á því ef menn vilja alls ekki undir neinum kringumstæðum frelsi í fjármagnsflutningum núna að þeir vilji fá annan gjaldmiðil og færa rök fyrir því að fá þann gjaldmiðil? Helstu rökin eru þau að þar af leiðandi verði frelsi í gjaldeyrisviðskiptum, en á sama tíma leggja þeir fram frumvarp og ganga þannig fram að þeir gera allt til að hefta fjármagnsflutninga. Þetta gengur ekki upp. Ef hv. þingmenn Samfylkingarinnar og hæstv. ráðherrar væru á fleygiferð að reyna að losa um gjaldeyrishöftin og segðu í leiðinni: Síðan viljum við taka upp erlendan gjaldmiðil, nánar tiltekið evru, af því að við erum fylgjandi frjálsum fjármagnsflutningum. Það gengi alveg upp, en það gengur ekki upp að koma með frumvarp og segja: Við ætlum að banna allt sem okkur dettur í hug og rúmlega það þegar kemur að frjálsum fjármagnsflutningum en við erum gríðarlega fylgjandi frjálsum fjármagnsflutningum ef þeir eru í nafni evru. Þetta gengur ekki upp. Ég er ansi hræddur um að örvænting Samfylkingarinnar sé orðin slík þegar kemur að aðild að Evrópusambandinu að eitt af örvæntingarfullum ráðum hennar sé að reyna að búa til eins mikið haftakerfi og mögulegt er til að eina lausnin verði að taka upp annan gjaldmiðil og vonast þeir þá líka til þess að enginn Íslendingur lesi neitt um stöðuna á þeim gjaldmiðli eða ríkjabandalaginu sem hefur tekið þann gjaldmiðil upp að hluta.