139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[14:24]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp sem fram er komið í kjölfar þess að ný áætlun um afnám hafta var samþykkt í ríkisstjórninni í mars á þessu ári. Skömmu síðar var frumvarpið lagt fram á þinginu og hefur legið hér og beðið eftir þessum hauststubbi á þinginu.

Mig langar til að byrja á því að rifja upp þau orð sem látin voru falla þegar höftunum var komið á um haustið 2008. Um frumvarp um gjaldeyrishöft segir þegar þau voru lögfest í upphafi að stefnt sé að því að afnema þau svo fljótt sem auðið sé og lagt til að heimild Seðlabankans til að gefa út reglur um takmarkanir eða stöðu fjármagnshreyfinga sé bundin við tímabil fjárstuðningsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Þegar málið var til umræðu í upphafi var gengið út frá því að fjárstuðningsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, eins og það var orðað í frumvarpinu, stæði einungis í tvö ár, þ.e. fram á haustið 2010. Þegar tekist var á um það í þingsal hvort það væri gæfuskref eða hugsanlega einfaldlega neyðarúrræði var lögð á það rík áhersla af þeim sem studdu höftin, og þeirra á meðal var ég, að það væri grundvallaratriði að allt yrði gert til að takmarka það tímabil sem höftin mundu vera. Í því sambandi var m.a. tekið fram að Seðlabankinn fengi nokkuð víðtækar heimildir til að setja höft en vonandi kæmi ekki til þess að hann mundi setja höftin. Í öðru lagi var vakin athygli á því að áætlunin ætti að koma til endurskoðunar á sex mánaða fresti. Menn gerðu sér grein fyrir því.

Í þessu frumvarpi sagði, með leyfi forseta:

„Þar sem um verulega íþyngjandi takmarkanir er um að ræða, sem æskilegt er að standi eins stutt og mögulegt er, er lagt til að reglurnar komi til reglulegrar endurskoðunar a.m.k. á sex mánaða fresti.“

Í þeirri umræðu sem fram fór kom þetta jafnframt mjög skýrt fram. Núverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sagði, með leyfi forseta:

„Vonast er til að þessar hömlur þurfi hvorki að vera jafnvíðtækar að umfangi og lögin kveða á um né standa í jafnlangan tíma og heimildir kveða á um heldur þvert á móti að unnt verði að draga úr hvoru tveggja eins fljótt og unnt er.“

Á þessum tíma voru það Samfylking og Sjálfstæðisflokkur sem mynduðu ríkisstjórn og það var með þau áform í huga að láta höftin standa eins stutt og mögulegt væri, taka þau til endurskoðunar á sex mánaða fresti og í öllu falli að hafa höftin ekki lengur en fram á haustið 2010, sem málið fór í gegn á þinginu. Á þessum tíma var alveg augljóst að ákveðin skilyrði þyrftu að vera til staðar þegar fram í sækti til að raunhæft væri að aflétta höftunum.

Ég hef hlýtt á hluta umræðunnar sem fram hefur farið í dag. Það er rétt sem þar hefur komið fram að trúverðug efnahagsstefna er ein grundvallarforsenda þess að menn geti aflétt höftum. Menn geta ekki aflétt höftum í því ástandi þegar þeir eiga ekki fyrir útgjöldum. Endurreisn peningamálastefnunnar er önnur forsenda þannig að það sem tekur við þegar höftunum er létt sé nægilega vel undirbyggt. Það er öllum ljóst að allur trúverðugleiki hafði skolast frá okkur, frá grundvelli þeirrar peningamálastefnu sem rekin hafði verið í hruninu, og þess vegna þurfti að renna sterkari stoðum undir hana. Ég er þeirrar skoðunar að það tvennt hafi mistekist og tekið allt of langan tíma. Í fyrsta lagi blasir við að efnahagsstefnan er óskýr og ótrúverðug og hitt að mótun nýrrar peningamálastefnu þar sem það er útskýrt hvað taki við hefur dregist. Það er fjárfestum og öðrum fullkomlega óljóst hvers konar ástand tæki við, hvers konar stýring tæki við væru höftin afnumin.

Síðan deila menn um forsendur þeirra ríku hafta sem verið hafa í gildi. Margir vilja meina að Seðlabankinn ofmeti stórkostlega hættuna á útflæði krónueigna þegar höftunum verður aflétt. Fyrir því hafa menn fært rök og ég vísa í þá umræðu sem fram hefur farið opinberlega um það atriði.

En það er líka eitt enn sem þarf að vera til staðar fyrir utan endurnýjaða peningamálastefnu og fyrir utan trúverðugt efnahagsplan, það er pólitískur ásetningur og pólitískt áræði, það hlýtur að þurfa að vera til staðar. Menn verða að hafa næga sannfæringu fyrir því að það sé hægt að vera án haftanna til að komast í gegnum skammvinnan storm eða eitthvert stutt óveður sem kynni að dynja á í kjölfar afléttingar haftanna. Menn verða að hafa pólitískan styrk til að standast slíkt skammvinnt tímabil, þeir verða að vera sannfærðir um að við taki betri tímar. Ég vil leyfa mér að efast um að ríkisstjórnin hafi þá trú og það frumvarp sem við ræðum í dag sendir öll merkin um að menn hafi hana einmitt ekki heldur þvert á móti.

Ég hef rakið hvernig áformin voru í upphafi um að aflétta höftunum innan tveggja ára og þeir sem tóku þátt í umræðunni og þeir sem studdu frumvarpið gerðu það á þeim forsendum og svo höfum við séð það sem gerst hefur í millitíðinni. Ég vék að því að frumvarpið hefði komið fram samhliða nýrri áætlun um afnám haftanna. Sú áætlun kom í mars en fyrst kom yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í október 2009 þar sem sagt var að fyrstu skrefin yrðu tekin með því að opna fyrir innstreymi erlends fjármagns. Mig langar aðeins að staldra við þann punkt.

Það tók sem sagt heilt ár að aflétta höftum á innstreymi erlends fjármagns. En hvers konar bull og vitleysa er það að loka landinu í heilt ár fyrir innstreymi erlends fjármagns, fyrir nýjum fjármunum þegar höftin voru í grunninn hugsuð til þess að forða flótta fjármagns út úr landinu? En það var líka lokað fyrir innstreymið í heilt ár. Það vissi því kannski ekki á gott varðandi útstreymishöftin þegar það hafði tekið heilt ár að opna fyrir það að menn mættu koma með fé inn í landið. En nú er sagt í þessu nýja frumvarpi að þar sem það sé fyrirsjáanlegt að gjaldeyrishöftin verði lengur til staðar en ætlað var í upphafi þyki rétt að lögfesta reglurnar. Það sendir þau skilaboð að verið sé að herða enn frekar á reglunum, að þörf sé fyrir fleiri stoðir undir þau höft sem búið er að koma upp. Síðan segir líka að áætlunin hafi ekki verið tímasett heldur muni framvindan ráðast af þróun efnahagslegra skilyrða. Augljóslega. Eins og ég rakti áðan þurfa efnahagsleg skilyrði að vera til staðar til að afnema höftin en hvað hafa stjórnvöld gert til að tryggja að þau efnahagslegu skilyrði séu til staðar? Þar finnst mér augljóst að ríkisstjórnin hafi brugðist. Ég vísa annars vegar til spánna sem við höfum fyrir framan okkur um t.d. hagvöxt á næsta ári sem verður innan við 1% ef spá Seðlabankans gengur eftir — Seðlabankinn spáir einungis 1,2% hagvexti á næsta ári — og annars þess sem hefur fram komið í umræðunni.

Það er álit fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og skattanefnd að með frumvarpinu sé verið að senda skýr skilaboð um að höftin séu komin til að vera og það væru mjög alvarleg hagstjórnarmistök fólgin í því að lögfesta frumvarpið. Ég vil leyfa mér að taka undir það sjónarmið fulltrúa okkar sjálfstæðismanna í efnahags- og skattanefnd og kalla eftir því í umræðunni að stjórnarliðar sýni nú vilja til þess að taka þetta allt saman til endurskoðunar. Þeir munu ekki þurfa að leita lengi eftir stuðningi til að flýta planinu vegna þess að stjórnarandstaðan er öll með í þeirri vegferð. Ef menn meina eitthvað með þeim orðum sínum að það standi til að aflétta höftunum eins hratt og auðið er þá eigum við að eiga um það samráð og ræða opinskátt um hvaða skilyrði við þurfum að uppfylla; hvað er það sem skortir á til að við náum þeim árangri?

Mér finnst það standa upp á Samfylkinguna í umræðu um þetta mál að svara því hvort hún trúi því í raun að það sé yfir höfuð hægt að afnema höftin. Það er ekki hægt að leggja fram þingmál og taka fram í greinargerð með málinu og fylgja því þannig úr hlaði á þinginu að til standi að afnema höftin eins fljótt og auðið sé og halda á lofti á sama tíma þeim málflutningi að við getum ekki byggt á íslensku krónunni í íslensku efnahagslífi til framtíðar heldur sé nauðsyn fyrir okkur að ganga inn í Evrópusambandið og taka upp evruna með inngöngu í Efnahags- og myntbandalag Evrópu. Það þarfnast frekari skýringar við. Það er miklu betra að stjórnarflokkarnir hafi þá línu alveg skýra að höftin muni vara þar til nýr gjaldmiðill verði tekinn upp. Ef það er stefnan finnst mér að það skorti á að það sé sagt hreint út. Ef menn ætla sér að afnema höftin á þeim gildistíma sem hér er kynntur til sögunnar — þó að það sé ekki nákvæmlega tilgreint þá hefur frumvarpið þó ákveðinn gildistíma — stangast það á við fullyrðingar um að ekki sé hægt að byggja á krónunni til framtíðar. Það finnst mér að þurfi að skýra betur.

Ég vil líka kalla eftir því í umræðunni og ég skora á efnahags- og viðskiptaráðherra og ríkisstjórnina að opna frekar og hraða endurskoðun peningamálastefnunnar og eiga víðtækara samráð um þá endurskoðun en er í dag þar sem það er að miklu leyti lokað inni í Seðlabankanum, þannig að við reynum að skapa einhvern sameiginlegan grundvöll fyrir því að hér geti komist á eðlilegt ástand að nýju. Auðvitað skiptir það okkur öll gríðarlega miklu máli. Maður ætlar engum að vilja hafa höftin og það ástand sem af þeim leiðir lengur en nauðsyn krefur. En við getum tekist á um forsendurnar og til að það skapist einhver umræðugrundvöllur um það þurfa menn að koma með til umræðunnar þá vinnu sem innt er af hendi, t.d. í Seðlabankanum. Við þurfum að opna umræðuna og einangra eða skilgreina betur þá átakapunkta sem til staðar eru. Einn þeirra er sá sem ég hreyfði í máli mínu og hann snýr að því hvort þetta sé yfir höfuð hægt að mati Samfylkingarinnar án inngöngu í Evrópusambandið.

Ég tel að þetta sé hægt og mér finnst sem margir málsmetandi menn hafi teflt fram gildum rökum fyrir því að menn ofmeti hættuna á hröðu útstreymi fjármuna. Eitt sem rennir stoðum undir það er að það var tiltölulega lítill áhugi á síðasta útboði Seðlabankans. Það sýnir að menn eru þó ekki í meiri spreng við að losna úr stöðu sinni hér en svo að það var takmarkaður áhugi á síðasta útboði. Það virðist líka vera niðurstaðan af þeim útboðum sem haldin hafa verið að einungis um 15% af þeim sem hafa stöðu í íslensku krónunni hafa á annað borð sýnt áhuga á því að losna út. Ef það ætti að draga einhverja ályktun af því mætti t.d. benda á að það þýðir að 85% þeirra sem hafa slíka stöðu hafa ekki sýnt áhuga á því að fara út á því gengi sem þarna hefur verið um að ræða. Það er eitt af því sem við hljótum að taka með í reikninginn og spyrja okkur að vegna þess að þessi þrýstingur frá krónueignunum er ein helsta réttlætingin fyrir höftunum. Það er ein helsta ástæðan fyrir því að Seðlabankinn og hæstv. ráðherra hafa talið að áframhaldandi þörf sé á svo stífum höftum.

Það mætti síðan rekja söguna um hvernig allt hefur farið á annan veg. Ég rakti það svo sem stuttlega í inngangi máls míns hvernig áformin voru um að aflétta höftunum á tveimur árum en við erum komin á einhvern allt annan stað. Á því tímabili sem liðið er í millitíðinni hafa meira og minna allar breytingar verið í þá átt að sparsla upp í allar sprungur og göt. Ég verð að setja spurningarmerki við þá hugmyndafræði sem þar er að baki því að hún er sú að hægt sé að gabba menn einhvern veginn og setja svo stíf skilyrði eða höft þannig að allir séu læstir inni og svíða þá undir þeim þröngu skilyrðum og stífu höftum til að þeir losi um krónustöðu sína á mjög lágu gengi og þegar það tekst verði höftunum aflétt.

En nú er kannski kominn tími til að svara því: Hvað ef menn ætla ekkert að láta svíða sig út? Þeir hlusta eftir því að áætlunin gengur út á að aflétta höftunum eftir tvö til þrjú ár og það er þá sem þeir fara hugsanlega að huga að því. Hvað ef sálfræðihernaðurinn virkar ekki betur en svo að menn sjá í gegnum þetta og eru kannski ekki í þeim spreng sem menn hafa talið. Hvað ætla menn þá að gera ef hengjan er bara þarna og hangir yfir mönnum? Getur verið að þessi hugmyndafræði gangi ekki upp að byggja á sífellt strangari höftum til að gera mönnum þetta sífellt erfiðara og pína þá þannig til að beygja sig undir væntingar og kröfur stjórnvalda? Getur verið að við Íslendingar séum í færum til að sýna fram á að í efnahagslífi okkar séu allar forsendur fyrir hendi til að gjaldmiðillinn fari að styrkja sig og að það sé engin ástæða fyrir menn til að hlaupast á brott? Getur verið að við séum í færum til að koma af stað hagvexti sem mundi renna stoðum undir styrkara gengi krónunnar og auka þar með trú manna á bjartsýni efnahagslífsins og um leið að koma í veg fyrir að það myndist mikið fljót eða straumur krónueigna út úr landinu? Ég hef trú á því. Ég hef trú á því að það sé hægt að koma þessum skilaboðum til leiðar. Ég tel að of mikið sé gert af því að byggja á einhvers konar þvingunarúrræðum á sama tíma og menn hafa trassað að sinna grundvallarþáttunum sem eru annars vegar endurnýjuð peningamálastefna sem þarf að vinnast með miklu hraðari og opnari hætti en gert hefur verið, og hins vegar að leggja fram plön sem munu laða hingað fjárfestingu, losa úr læðingi tækifæri okkar og renna stoðum undir nýtt hagvaxtarskeið. Hagvaxtarskeiðið verður að vera miklu öflugra en við sjáum í kortunum í dag. Við þurfum hagvöxt upp á um 2% bara til að taka við unga fólkinu sem er að koma úr skóla, bara til að það sjáist í vöxt í atvinnuleysinu. Hagvöxturinn þarf að fara upp í um 4% til að við förum virkilega að finna fyrir alvöruviðsnúningi og það er slíkur hagvöxtur sem aðilar vinnumarkaðarins hafa haft væntingar um. Þær væntingar hafa ekki gengið eftir. Þess vegna höfum við upplifað óróatímabil á vinnumarkaði og þess vegna ræðum við um að ríkisstjórnin vilji lögfesta þær reglur í dag sem Seðlabankinn hefur áður sett og treystir sér ekki til að koma fram með tímasetta áætlun um afnám haftanna.