139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[14:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að 4% hagvöxtur væri mjög góður árangur hjá okkur. Það er fagnaðarefni að hann stefnir í að verða tæp 3% á þessu ári. Ríkisstjórnin hefur farið í gegnum mestu efnahagsörðugleikana, hér er kominn vöxtur á ný í efnahagsstarfsemina og smátt og smátt er Ísland að rísa úr öskustónni. Sannarlega verður hægt að létta höftunum þó að það sé auðvitað ljóst að íslenska krónan fer aldrei á flot með sama hætti og áður. Hana mun þurfa að verja með þjóðhagsvarúðartækjum og jafnvel taka fyrir eða takmarka ýmiss konar brask með hana sem hún mun aldrei geta staðist.

Þegar formaður Sjálfstæðisflokksins kemur hingað upp og kallar eftir því að við hröðum þessum leiðangri er óhjákvæmilegt að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að aðstæður á heimsmörkuðum eins og þær hafa blasað við okkur á sumarmánuðum, þar sem hlutabréfamarkaður í Evrópu féll í gær um fleiri, fleiri prósent, þar sem stórir þróaðir markaðir öflugra fjármála- og efnahagsvelda til áratuga og árhundraða hafa átt í gríðarlegum vandræðum og þar sem menn hafa alls staðar miklar áhyggjur af viðkvæmum markaði, kalli á að við ræðum sérstaklega að flýta því að setja okkar litla og veikburða gjaldmiðil, sem hann mun alltaf verða, á flot út á þann ólgusjó á þeim óvissutímum sem við nú lifum. Hvaða efnislegu rök standa til þess að aðstæður (Forseti hringir.) á mörkuðum hér kalli á slíkar breytingar í efnahagsstefnu okkar? Er það ábyrg efnahagsstefna af hálfu Sjálfstæðisflokksins?