139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[14:46]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég rakti áðan hvernig við um haustið 2008 í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vorum ákveðin í því að koma tímabundið á höftum. Við vorum meira að segja með tímasetta áætlun hvað það snerti. Það átti að gerast á tveimur árum. Þá voru aðstæður á þeim fjármálamörkuðum sem hv. þingmaður vísar til miklu verri en þær eru í dag, í raun og veru miklu meiri óvissa. Í því samhengi mætti segja að það hefði verið mun óábyrgara yfir höfuð að vera með einhverjar væntingar um afnám haftanna þá en nú. Ég er þeirrar skoðunar að við höfum einfaldlega ekki efni á öðru en að gera allt sem í okkar valdi stendur til að losna undan höftunum sem allra fyrst.

Hefur það áhrif að órói er á fjármálamörkuðum Evrópu og vestan hafs í augnablikinu? Það getur haft einhver áhrif. Það getur haft þau áhrif að kannski væri óskynsamlegt af okkur að afnema höftin í lok þessa mánaðar. Ég er ekki að tala fyrir því. Ég er að kalla eftir því að við komum með tímasetta áætlun, trúverðugt plan þar sem við sýnum fram á að efnahagsáætlun sé til staðar, þar sem menn sjá að hér eru að skapast skilyrði fyrir hagvexti, þar sem við klárum þessa endurnýjuðu peningamálastefnu og leggjum hana fram og segjum um leið: Á skömmum tíma — en ekki einhvern tíma í framtíðinni, ódagsett, eins og verið er að gera hér — höfum við einsett okkur það markmið að afnema höftin, þessi umfangsmiklu höft eins og þau eru nú.

Munu einhver höft á endanum þurfa að sitja eftir? Það kann vel að vera. En höftin eins og þau eru í dag eru það skaðleg fyrir atvinnulífið og koma þannig í veg fyrir nýja fjárfestingu og sköpun nýrra starfa, sem bitnar á endanum á heimilunum í landinu, að við höfum í raun og veru ekki efni á öðru en afnema þau eins fljótt og auðið er. Það væri fyrst óábyrg efnahagsstefna að gefa það frá sér.