139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[14:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þurfa alltaf að vera einhver höft hér? Það kann vel að vera, segir formaður Sjálfstæðisflokksins í ræðustólnum, og gengst þar með við því sem við öll vitum, hversu óskaplega veikbyggður sá gjaldmiðill er sem við byggjum á. Haustið 2008 hygg ég að hv. þingmaður hafi verið að horfa til annarra gjaldmiðla en hann hefur trúlega skipt nokkrum sinnum um stefnu í því atriði eins og ýmsu öðru á undanförnum missirum þar sem efnahagsstefna Sjálfstæðisflokksins hefur á stundum gengið út á það að einn daginn eigum við að fara í fríverslun við Kína sem andsvar við samstarfi við Evrópuþjóðirnar en hinn daginn eigum við að meina þeim að fjárfesta í landinu.

Eins virðist vera um afstöðuna til kröfuhafa. Það vekur ekki síður athygli í máli formannsins að hann lýsir miklum áhyggjum af því að það eigi að reyna að pína þá sem eiga stöður í krónunni, það eigi að reyna að láta þá fá sem lægst endurgjald fyrir, það eigi að svíða þá svo að notað sé það orðalag sem formaður Sjálfstæðisflokksins viðhafði hér. Síðast þegar ég heyrði hv. formann tala um þessi efni hafði hann þveröfugar áhyggjur, að það yrði of mikið á hinn veginn og að hér væri ríkisstjórn sem væri allt of eftirlát kröfuhöfum og hinum erlendu aðilum.

Það er orðið býsna mikilvægt að hv. þingmaður geri nokkra grein fyrir þessu: Er óstöðugleikinn á mörkuðunum í dag ástæða fyrir að halda að okkur höndum í því að létta af höftunum? Eigum við að horfa til alvörugjaldmiðilsins eins og evrunnar, eins og þingmaðurinn hefur haldið fram? (Gripið fram í: Alvöru?) Eða ætlar hann að styðjast áfram við krónuna með varanlegum höftum? Erum við að fara allt of (Forseti hringir.) vel með kröfuhafana eða erum við að fara að svíða út úr þeim krónurnar í hengjunni af óskammfeilni (Forseti hringir.) eins og mér fannst formaðurinn gefa í skyn?