139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[14:51]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það mikilvægasta við þetta innlegg frá hv. þingmanni var að hann undirstrikaði að það er engin alvara á bak við þetta plan. Eins og birtist í orðum hans hefur hann ekki nokkra einustu trú á því að hægt sé að afnema höftin. Hann talar niður gjaldmiðilinn okkar og talar fyrir því að eina leiðin sé að taka upp nýjan gjaldmiðil með inngöngu í Evrópusambandið. Þar með er þá því svarað að það er ekkert meint með þessu plaggi hérna. Af hverju segja menn það ekki bara hreint út? Það er það sem ég hef verið að kalla eftir og ég þakka hv. þingmanni fyrir það. En ég er honum ekki þakklátur fyrir að leggja mér orð í munn. Þegar ég tala um það plan sem hér er augljóslega í gangi, að setja svo stíf höft að menn eigi engan valkost annan en þann að selja sig ódýrt út úr krónunni, þá er ég ekki að segja að það sé vitlaust plan. Það er alveg óvitlaus strategía. Ég var að bara að benda á að það virkar ekki vegna þess að í síðasta útboði Seðlabankans var enginn áhugi. Það hafa ekki nema 15% af eigendum krónueigna á Íslandi sýnt því einhvern áhuga að láta svíða sig út. Það er það sem ég er að vekja athygli á. Það væri mjög gott ef við gætum losnað undan höftunum með því að fá menn til að skipta krónum í erlendan gjaldeyri á hagstæðu gengi fyrir okkur en ég sé það ekki alveg ganga upp og það er það sem ég er að benda á. Ég er ekki að taka málstað kröfuhafa. Ég er að spyrja spurninganna sem skipta máli. Er planið um afnám haftanna að ganga upp eða ekki?

Varðandi framtíð krónunnar að öðru leyti: Þegar ég kalla eftir mótun nýrrar peningamálastefnu með þátttöku þingsins og á grundvelli opinnar umræðu vil ég taka með í þá umræðu möguleikana á því að hér verði til framtíðar tekin upp önnur mynt. Mér finnst sjálfsagt mál að taka kosti og galla þess með í þá umræðu, mér finnst það nauðsynlegt. Þegar menn á svona miklum umbrotatímum (Forseti hringir.) eins og nú velta fyrir sér möguleikunum og reyna að leita lausna fyrir framtíðina til að bæta hag almennings í landinu eru alltaf einhverjir sem hlaupa til og segja: Ja, þeir vita (Forseti hringir.) ekki alveg hvað þeir vilja. Það er ómerkilegur áróður.