139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[14:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það er margt sem kemur upp í hugann þegar hlýtt er á ræðu hv. þingmanns og ekki síst andsvörin sem hv. þingmaður fékk frá hv. þm. Helga Hjörvar.

Ég velti fyrir mér í framhaldinu hvort staðan sé virkilega sú að það séu ákveðin öfl í samfélaginu, öfl sem gætu kallast Samfylkingin eða eitthvað annað, sem hafi hag af því að halda við gjaldeyrishöftunum vegna orðræðunnar um „veikan gjaldmiðil“ sem þeir kalla krónuna, hvort við viljum virkilega vera föst í höftum til eilífðar með krónuna eða taka upp evru. Svo kemur fram í andsvari að „alvörugjaldmiðill“ sé evran. Ég hugsa að þeir sem tala svona ættu að fylgjast með fjölmiðlum, ættu að horfa á fréttir frá Evrópu. Það er komið litasjónvarp og góður aðgangur að fréttum. Það er ekki verið að flytja þær fréttir að evran sé sá sterki gjaldmiðill sem menn hafa viljað vera láta. (Gripið fram í.)

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Ég vil kannski fyrst taka undir það með honum að það er mjög mikilvægt að umræða um framtíðargjaldmiðil Íslands, hvort sem það er króna eða eitthvað annað, verði tekin á rólegum vitrænum nótum. Það er algerlega óforsvaranlegt að einblína á eina lausn í því máli ef leita þarf lausna. Það þarf að setjast niður með skynsemi að leiðarljósi og ræða hlutina, ekki æða áfram eins og mér sýnist ríkisstjórnin gera. En hvaða áhrif hafa höft til langs tíma? Hvaða áhrif kann það að hafa á íslenskt efnahagslíf að festa hér höft með lögum til fimm ára?