139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[14:56]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Til að svara spurningunni með einföldum hætti þá mun það hafa mjög skaðleg áhrif á efnahagslífið. Það mun koma í veg fyrir fjárfestingu og það mun draga úr sköpun nýrra starfa sem mun á endanum bitna á heimilunum. Mér finnst þetta allt ágætlega rakið í þeim nefndarálitum sem liggja frammi við þessa 2. umr. frumvarpsins. Í grunninn held ég reyndar að það sé ekki deilt um skaðleg áhrif haftanna eins og þau eru í dag hvar sem menn stilla sér upp í stjórnmálum. En deilt er um hversu brýnt sé að afnema höftin og hversu raunhæft það sé að flýta því og hvort menn hafi staðið sig í því að skapa skilyrði fyrir afnámi haftanna.

Í tilefni af þessari umræðu um gjaldmiðilinn og því hvort við munum hugsanlega þurfa að búa við gjaldmiðil með einhver höft og þeim boðskap sem hér hefur mikið borið á, að við eigum engan annan valkost en ganga í Evrópusambandið og taka upp evru vegna þess hve krónan hafi gefið mikið eftir o.s.frv., langar mig til að vekja athygli á því að verkefni okkar á þingi er að bæta lífskjör fólksins í landinu og það hefur tekist býsna vel í gegnum áratugina og síðustu rúma hálfa öld, bara býsna vel á grundvelli íslensku krónunnar. Þegar við gerum upp það tímabil er rangt að spyrja sig: Hvernig hefur íslenska krónan staðið sig gagnvart dollar eða evru eftir að hún var tekin upp eða gagnvart marki eða danskri krónu? — eins og menn hafa verið að gera. Það er hins vegar rétt að spyrja sig: Hvernig hafa lífskjörin á Íslandi vaxið til samanburðar við þær þjóðir sem byggja á þessum gjaldmiðlum? (Forseti hringir.) Það er það sem er meginverkefni okkar, að bæta lífskjörin.