139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[14:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stöðugleiki virtist vera í þingsal þegar ég gekk í ræðustól. Það er vissulega það sem allir sækjast eftir, þ.e. stöðugleiki í efnahagsmálum og atvinnumálum. En síðan núverandi ríkisstjórn tók við hefur verið lítið um stöðugleika, hvort sem það er stöðugleiki í atvinnulífi eða stöðugleiki innan ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Við höfum séð skjálftamæla hreyfast á Íslandi út af jarðhræringum en það er stöðugur skjálfti innan ríkisstjórnarinnar vegna þess að þar eru menn ekki sammála um hvert á að fara og þar af leiðandi vantar pólitískan stöðugleika í landinu.

Pólitískur stöðugleiki eða vandræðagangur endurspeglast ekki síst í þeirri umræðu sem við eigum um gjaldmiðilinn, um gjaldeyrishöftin og um það hvernig við eigum að koma hjólum atvinnulífsins af stað aftur. Við vitum að innan ríkisstjórnarinnar eru skiptar skoðanir um það hvort hér eigi að búa við krónu áfram eða taka upp evru. Það sem er kannski erfitt við umræðuna þegar vitnað er til ríkisstjórnarinnar er að annar stjórnarflokkurinn vill bara taka upp evru. Það hefur ekki verið ljáð máls á því mér vitandi að skoða aðra hluti. En á meðan þetta á sér stað missum við af tækifærum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um að þau rúmu tvö ár sem nú eru liðin af starfstíma ríkisstjórnarinnar séu tími glataðra tækifæra. Því er þannig farið að í kreppu eða samdrætti skapast mörg tækifæri. Við sjáum að það er mjög mikið af duglegum einstaklingum sem bjarga sér en það þarf að skapa heildarmyndinni, atvinnulífinu í heild, tækifæri og það held ég að vanti. Mig langar því að spyrja hvort hv. þingmaður taki undir það og einnig hvort þau rök sem voru á sínum tíma fyrir því að setja upp gjaldeyrishöftin eigi við í dag.