139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[15:00]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að sú neyð sem var uppi þegar gjaldeyrishöftin voru sett sé ekki lengur til staðar. En það þarf ekki að þýða að eftir að þau eru á annað borð komin á sé auðvelt að kippa þeim af í einu vetfangi. Eins og ég rakti áðan þurfa að vera til staðar ákveðnar grunnforsendur sem mér finnst að ríkisstjórnin hafi ekki rætt nægilega vel og síðan þurfa menn að setja undir sig hausinn og koma fram með trúverðugt tímasett plan til að ná þessu markmiði.

Það er að öðru leyti laukrétt hjá hv. þingmanni að við erum núna að upplifa ár glataðra tækifæra. Það er ekki bara vegna þessara hafta heldur vegna efnahagslegu óvissunnar sem hefur verið hér viðvarandi, t.d. óvissunnar um stefnu stjórnvalda í orkunýtingarmálum, um stefnu stjórnvalda hvað snertir framtíð fiskveiðistjórnarkerfisins, (Forseti hringir.) yfirlýsingar um breytingar á skattkerfinu og annað þess háttar. Með þessu áframhaldi stefnir í áratug hinna glötuðu tækifæra.