139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[15:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum eitt af þessum stóru málum er snerta það umhverfi sem íslensk fyrirtæki og einstaklingar búa við í okkar ágæta landi. Við sem aðhyllumst frelsi í viðskiptum og erum opin fyrir því að eiga góð samskipti við erlend ríki og fyrirtæki og viljum örva fjárfestingar í landinu okkar hljótum að spyrja okkur hvaða áhrif það hefur að lögfesta gjaldeyrishöft til fimm ára. Ég held að skilaboðin ein burt séð frá beinum áhrifum hljóti að vera skilaboð um að hér sé veikt efnahagslíf fyrir og að fjárfestar séu hálfpartinn litnir hornauga meðan á þessum tíma stendur.

Þegar Ísland lendir í þessari kreppu lenda vitanlega mörg önnur ríki í kreppunni. Þá upphófst mikið tal um að ástæða kreppunnar væri gjaldmiðillinn, væri krónan sem menn væru búnir að búa við mjög lengi. Það hefur hins vegar komið á daginn að ekki er það gjaldmiðlinum að kenna að hér varð kreppa eða efnahagshrun. Það má benda á ríki með annan gjaldmiðil eða gjaldmiðla sem eru sterkari að því er talið er en íslenska krónan, ríki með dollara og evru svo dæmi séu tekin. Ég hef hlustað eftir því að fáir tala um andlát krónunnar nema þeir sem vilja ganga blint í Evrópusambandið. Þeir vilja bara ganga þangað, þá er ég ekki endilega að tala um þá sem vilja kíkja í pakkann eins og sagt er heldur þá sem hafa trú á því að þar sé hag Íslands best borgið. Ég hef ekki heyrt erlenda fræðimenn — það kann að vera rangt hjá mér en ég man ekki eftir því — spá andláti krónunnar eins sterkt og menn spá andláti evrunnar. Þess vegna hljótum við að velta því fyrir okkur hvers vegna við tökum ekki upp nauðsynlega umræðu um gjaldmiðlamál Íslands og skoðum alla kosti, einblínum ekki bara á krónu eða bara á evru. Mér finnst það óábyrgt og legg áherslu á slíkar umræður.

Við á Íslandi höfum tækifæri til að vinna okkur hraðar út úr kreppunni en mörg önnur ríki. Við vitum hvað við eigum. Við höfum öflugan sjávarútveg sem þarf í rauninni ekkert annað en vissu um framtíðina til að geta fjárfest meira og sett enn meiri innspýtingu inn í hagkerfið. Við höfum gríðarlega öflugan landbúnað sem framleiðir hágæðavörur og sparar mikinn gjaldeyri fyrir Íslendinga með þeirri framleiðslu sem hér er stunduð. Við höfum öfluga ferðaþjónustu, einstakt land sem erlendir aðilar eru tilbúnir að borga töluvert mikla peninga fyrir að heimsækja og skilja þar af leiðandi eftir gjaldeyri. Svo má ekki gleyma því að við erum með fyrirmyndariðnað sem mikil tækifæri eru í.

Því miður virðast þessir kostir hafa týnst undanfarin tvö ár í orrahríðinni og umræðunni um gjaldmiðilinn, um Evrópusambandið, um að halda lífi í ríkisstjórninni o.s.frv. Tækifærin hafa einhvern veginn farið fram hjá okkur í staðinn fyrir að þau séu nýtt til að efla efnahaginn, búa til störf, létta á skuldum heimila og fyrirtækja. Það er ein af forsendunum fyrir því að við komumst áfram. Ég held að það að festa gjaldeyrishöft með lögum til fimm ára hjálpi ekki til við neitt af því sem ég nefndi.

Það þarf stöðugleika. Það getur verið að höftum fylgi ákveðinn stöðugleiki og þau hafi verið nauðsynleg á hverjum tíma en ég held að það sé mikilvægt að horfa til þess að afnema höftin tiltölulega fljótt en þó með þeim hætti að það þurfi að vera belti og axlabönd, ef ég má orða það svo, á þeirri aðgerð og þeirri ferð sem verður valin við afnám gjaldeyrishaftanna. Ef hætta er á því að hér fari allt af stað og verðbólga aukist og lán íbúðareigenda og þeirra sem skulda í húsnæði sínu og þess háttar hækki upp úr öllu valdi þá þurfum við og þurfum hvort sem er að nota tækifærið og taka verðtrygginguna úr sambandi. Það hefur verið á það bent og Framsóknarflokkurinn benti m.a. á það í efnahagstillögum a.m.k. einu sinni ef ekki tvisvar að það væri skynsamlegt að hraða afnámi gjaldeyrishaftanna um leið og vísitalan yrði tekin úr sambandi til að koma í veg fyrir möguleg óæskileg áhrif ef krónan skyldi falla í verði. En til að ganga þann veg þarf áætlun.

Ég hef verið mjög hugsi yfir orðræðunni um krónu í höftum. Fram kom í andsvari hv. þm. Helga Hjörvars áðan hvort við vildum evru eða krónu í höftum. Ég held að ástandið á evrusvæðinu sé þannig að margir mundu hreinlega kjósa krónu í höftum en það er of einföld mynd dregin þarna upp og ef við værum ekki í þessari vegferð til Evrópusambandsins held ég að nálgunin væri með öðrum hætti, þá værum við að skoða aðra möguleika.

Hér hefur því líka verið velt upp hver raunveruleg stefna stjórnvalda sé í peningamálum og efnahagsmálum. Það eru býsna stór spurningarmerki sem hafa verið sett fyrir aftan þær vangaveltur og þær spurningar því að stefnan er ekki svo augljós. Ég fór fyrir stuttu síðan og kíkti á fréttir og annað þar sem fjallað var um framtíð evrunnar, evrusvæðisins, Evrópusambandsins og þess háttar. Ég held að skynsamlegt væri fyrir alla þá er koma að þessu máli að setjast niður og velta fyrir sér hvort ekki sé rétt að hægja aðeins á umsóknarferlinu, leggja umsóknina til hliðar og leyfa svo þjóðinni hugsanlega að kjósa um það þegar aðstæður skapast til að halda þessu áfram. Það er alveg klárt mál að þær aðstæður eru ekki fyrir hendi í dag. Þetta er að mínu viti skynsöm nálgun á því ástandi sem er við lýði þessa stundina. Við eigum ekki að halda áfram vegferð í Evrópusambandið meðan óróinn og óvissan um þróun þess er slík.

Lengi vel hefur umræðan snúist um að standa vörð um sjávarútveg, landbúnað og auðlindirnar. Það er mjög mikilvægt, við megum ekki missa sjónar af því, en miðað við nýjustu fréttir og nýjustu tíðindi um að aðilar innan Evrópusambandsins stefni að meiri samvinnu, meiri samruna, auknu efnahagsvaldi í Brussel yfir fjármálum aðildarríkjanna og því að búa til starf sérstaks fjármálaráðherra sem hafi bein afskipti af fjárlagafrumvörpum eða fjárlögum aðildarríkjanna þá er þetta að verða spurning um hvort við séum komin á þann stað að ræða um fullveldi landsins, ekki lengur um einstaka þætti eða samninga um einstaka þætti heldur hvort við viljum gefa eftir fullveldi okkar. Þessu þurfum við að svara.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta, herra forseti, er að orðræðan um að það verði annaðhvort höft eða evra er eins og lítið sé orðið eftir af skotfærum hjá hörðustu aðildarsinnum þegar farið er að stilla hlutunum upp með þessum hætti. Því þarf að sjálfsögðu að svara. En þetta eru vangaveltur sem mikilvægt er að skoða í þessu samhengi.

Í nefndarálitum sem hafa verið skrifuð um þetta mál er ýmislegt forvitnilegt að finna sem er til að auka áhyggjur þess er hér stendur af þessu máli. Sagan er vitanlega sú að ákveðið var að Seðlabanka Íslands yrði heimilt að setja tímabundið reglur um fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti. Það var örugglega nauðsynlegt á þeim tíma. Eins og fram kemur í þingræðum voru ýmsir fyrirvarar á því en almennt töldu menn að skynsamlegt væri að gera það á þeim tímapunkti. Það hefur reyndar sýnt sig að viðbrögð við ýmsu sem stjórnvöld höfðu við á þeim tíma voru að mörgu leyti betri og réttari en þær ráðstafanir sem önnur ríki gripu til, svo sem Írland og fleiri. Það er líka ljóst af þingræðum og atkvæðagreiðslum í þinginu að forsenda þess að menn sættu sig almennt við þessi höft var sú að þau væru tímabundin. Því er ekkert óeðlilegt að hér séu skiptar skoðanir um það hvort eigi að lögfesta nú þessi sömu höft til fimm ára á sama tíma og þeir sem vilja lögfesta þau blása sig upp og tala háum rómi um hversu allt sé gott, hve efnahagslífið gangi vel og hversu allt sé glæsilegt. Það skýtur skökku við að þeir vilji þá framlengja þessi höft.

Öll höft, þar á meðal þessi, eru að sjálfsögðu til að setja ákveðnar skorður og það er mjög sérstakt að við séum að setja skorður á t.d. gjaldeyrisviðskipti einstaklinga. Það kemur fram í breytingartillögum með frumvarpinu að í stað þess að þurfa að skila afgangsgjaldeyri þegar menn koma til landsins þurfi menn að skila gjaldeyrinum ef þeir t.d. þurfa óvart að hætta við ferð til útlanda. Segjum að ferðamaðurinn veikist og geti ekki farið þá þarf hann að fara og skila þeim gjaldeyri sem hann var búinn að kaupa sér. Ég man nú ekki alveg hámarkið en ætli það sé ekki 350 þús. kr. eða eitthvað svoleiðis sem hver einstaklingur getur fengið í erlendum gjaldeyri. Þetta minnir svolítið á gamlar sögur en sem betur fer höfum við ekki lifað við það hingað til eða sú kynslóð sem ég er af alla vega að vera skammtaðir aurar þegar farið er til útlanda. Það var reyndar einn ágætur þingmaður, hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem fékk hláturskast í ræðustól þegar hann rifjaði upp ferðir sínar að sækja um gjaldeyri. En svona er þetta. Árið 2012 nálgast hratt og þá hefði maður haldið að þetta væri ekki það umhverfi sem við vildum búa við.

Það má líka færa fyrir því rök að áframhaldandi höft muni standa í vegi fyrir mikilvægum erlendum fjárfestingum á Íslandi. Mikið hefur verið rætt um fjárfestingar kínversks athafnamanns hér á landi og verður að segjast eins og er að án þess að gefa þeim einhvern gæðastimpil þá er mjög ánægjulegt að einhver skuli þó hafa áhuga. Það kemur líka fram að sá ágæti Kínverji hugsi þetta til langs tíma. Síðan þurfum við hins vegar að fara yfir hvað við viljum leyfa í þessu tilfelli. Ég vil að menn skoði hlutina mjög vandlega. Ég vil ekki að menn slái þetta bara út af borðinu einn, tveir og þrír heldur að við setjumst niður með þessum ágæta manni og förum yfir hvað hann vill og reynum þá frekar að setja einhverjar girðingar ef okkur sýnist svo en að flæma hann burt.

Við getum ekki aukið fjárfestingar af því að erlendir aðilar vilja ekki eða eiga erfitt með að fjárfesta hér og innlendir aðilar eru lítið að fjárfesta. Við sjáum það, það nægir að nefna sjávarútveginn. Annað slagið koma fréttir og nú nýlega viðtal við einn framkvæmdastjóra nýsköpunarfyrirtækis, sem er hátæknifyrirtæki og framleiðir vörur fyrir sjávarútveginn, um að ekkert sé að gerast á Íslandi. Ástæðan er vitanlega sú að sjávarútveginum er haldið í spennitreyju. Þar vantar að eyða óvissu og horfa fram á við. Höft hafa að sjálfsögðu áhrif í þá veru líka því að nýsköpunarfyrirtæki sem getur hugsanlega vaxið, er með góða hugmynd og þarf að fá inn fjármagn, er kannski búið að vekja athygli hjá erlendum fjárfestum, þarf vitanlega að skýra hvað það þýðir ef hér eru komin gjaldeyrishöft lögfest til fimm ára, hvaða áhrif það hefur á viðkomandi fjárfesti sem vill hugsanlega leggja fjármuni í fyrirtækið o.s.frv. Að því öllu þarf að huga. Ég hef því mjög mikinn fyrirvara á því að við lögfestum eitthvað sem skaðar orðspor Íslands út á við og setur okkur á bekk með ríkjum sem hafa svo sem verið stjórnarliðum hér ofarlega í huga, Kúbu og slíkum ríkjum, þar sem viðskiptum einstaklinga og fyrirtækja eru settar verulegar skorður.

Ef ríkisstjórnin og Seðlabankinn telur nauðsynlegt að setja þessi gjaldeyrishöft hljótum við líka að velta fyrir okkur hvort aðilar þar hafi verið starfi sínu vaxnir. Ef lengja þarf höft til fimm ára er framtíðarsýn þessara aðila sú að þeir treysta sér ekki til að inna af hendi hlutverk sitt að halda hér opnum og frjálsum viðskiptum við önnur ríki, einstaklinga og fyrirtæki. Ef svarið er já við því þurfa þessir aðilar vitanlega að hugsa sinn gang og hverfa frá borði. Ég held að það sé alveg ljóst.

Í lokin ætla ég að grípa aðeins niður í breytingartillögur meiri hlutans sem eru til þess að reyna að lappa upp á þetta ólukkans frumvarp þó að verið sé að krafsa í það frekar en klára það. Á bls. 3 í c-lið 5. töluliðar stendur í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Í þriðja lagi er lagt til að 1. málsl. 3. mgr. verði felldur brott en þar er fjallað um skilaskyldu á þeim hluta ferðamannagjaldeyris sem ekki er nýttur í fyrirhugaðri ferð.“ — Það á sem sagt ekki að skila 10 evrunum sem voru eftir í vasanum þegar ferðamaðurinn kom heim til landsins. Það er mjög gott að 10 evrurnar geti farið ofan í krukku og hægt sé að geyma þær þangað til næsta ferð verður farin. Síðan kemur hér, með leyfi forseta: „Er þetta lagt til í ljósi athugasemda frá fjölmörgum umsagnaraðilum og fyrirsjáanlegra erfiðleika við framkvæmd ákvæðisins.“ — Það er sem sagt ekki endilega vegna þess að hversu fáránlegt þetta er heldur vegna þess að það er svo erfitt að framkvæma það, menn sjá ekki alveg hvernig á að gera það. Ætti að stofna nýja ferðamannagjaldeyrisinnheimtustofnun og hafa í flugstöðinni þar sem einhverjir tveir einstaklingar sætu á vegum Seðlabankans og tækju við gjaldeyri? Þetta er vitanlega galið þó að framkvæmdin sé ekki ómöguleg. Síðan stendur, herra forseti: „Aftur á móti þykir ekki ástæða til þess að fella skylduna niður þegar ekki verður af fyrirhugaðri ferð.“

Nú veit ég ekki hvort þeir er sömdu þetta frumvarp hafi lagst í rannsóknir á því hvað margir þurfa að fella niður ferð. Það má velta fyrir sér hvort það sama eigi að gilda þegar flugfélag aflýsir ferð og menn sitja heima eða þegar veikindi koma upp. En það að ætlast til þess að sá sem veikist og getur ekki farið í ferð þurfi að fara í bankann, skila gjaldeyrinum og kaupa hann svo hugsanlega aftur þegar hann er orðinn frískur og vill fara í ferðina með þeim kostnaði sem fylgir að kaupa gjaldeyri er vitanlega líka galið. Það kann að vera að þarna sé stóri bróðir og forsjárhyggjan að keyra þá er þetta sömdu fram af brúninni. Ég held að það sé klárlega með þeim hætti. Ég vona svo sannarlega að þetta frumvarp verði tekið til gagngerrar endurskoðunar ef það á að verða að lögum yfirleitt. Best væri að hér liti dagsins ljós ályktun eða frumvarp, sem allir sem sitja hér á þingi kæmu að, um hvernig við afnemum gjaldeyrishöftin af skynsemi. Best er að útiloka ekki neitt fyrir fram (Forseti hringir.) en þetta er forsjárhyggja af verstu gerð.