139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[15:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man eftir umræðunni um 15 árin. Þeir sem ætla að taka upp evru, eins og við þekkjum, þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði. Það virðist ekki vera metnaður hjá ríkisstjórninni sem nú situr að uppfylla þessi skilyrði efnahagslega. Metnaðurinn virðist frekar í þá átt að reyna að finna einhverjar flýtileiðir, einhverjar krókaleiðir til þess að fara fram hjá því kerfi sem Evrópusambandið hefur fyrir þau ríki sem taka upp evruna. Ef horft er á bókstafinn, ef horft er á hvernig Evrópusambandið hefur meðhöndlað þá sem vilja taka upp evru eru örugglega enn þá 10–15 ár í að menn geti tekið upp slíkan gjaldmiðil.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að umræðan er oft þannig að það er eins og það sé bara ein lausn, þ.e. að taka upp evru, annars sé ekki hægt að aflétta gjaldeyrishöftunum. Við höfum séð aðila úr viðskiptalífinu, m.a. frá Kauphöllinni, benda á leiðir til að afnema höftin á sex mánuðum eða eitthvað slíkt, þá er ekki verið að horfa til þess að evra sé endilega lausnin.

Það er hins vegar mikilvægt fyrir okkur að taka umræðu um gjaldmiðlamálin. Ég verð að segja að við, þessir frjálslyndu framsóknarmenn, sem sitjum á þingi og ræðum þessi mál, viljum að sjálfsögðu skoða (Efnahrh.: Eru allir frjálslyndir framsóknarmenn á þingi?) alla mögulega þætti. Það er ekki frjálslyndi, hæstv. ráðherra, (Efnahrh.: Hvar eru hinir?) að vilja loka sig af og einangra sig í evrunni, einangra sig í Evrópusambandinu, það er sú vegferð sem þessi ríkisstjórn er á, að einangra sig. (Gripið fram í.) Við eigum að skoða dollara, (Gripið fram í.) við eigum að skoða norska krónu, kanadadollara, (Gripið fram í.) sænska krónu, evruna, við eigum að skoða alla gjaldmiðla sem er hugsanlegt fyrir okkur að taka upp. (Forseti hringir.) Það viljum við frjálslyndir framsóknarmenn. (Gripið fram í.)