139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[15:30]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég má til með að blanda mér í samræðurnar við frjálslynda framsóknarmenn í þessari umræðu. Ég held að það sé alveg óhætt að segja að það frumvarp sem við ræðum hér í seinna sinn, af því að við gerðum hlé á því í vor þegar við lukum störfum, sýni með skýrum hætti að gjaldeyrishöftin munu verða hér í nánustu framtíð. Það eru enginn merki um að plan sé til, raunverulegt plan, um að létta þeim af krónunni. Nú er það alveg rétt sem hefur komið fram hér í umræðunni, bæði fyrr og nú, að það hefur alltaf verið ákveðinn vandi að stýra íslensku krónunni eins og ávallt er með gjaldmiðla. Það þarf virkilega að taka vel á í efnahagsstjórn til að skapa stöðugt efnahagslíf. Það er ekki einkamál íslensku krónunnar. Þannig er það bara í peningastjórn. Ég hygg að við þurfum að gera miklu betur í því. Það vita náttúrlega allir að við erum ekki að fara að taka upp evruna þótt hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sé alveg sannfærður um að það sé eina lausnin.

Mig langar að spyrja hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson að því, eða velta því upp: Hvernig sér hann það fyrir sér að við þróum áfram peningamálastefnuna? Nú hefur það verið rætt á vettvangi Seðlabankans að menn eru að skoða valkost við þá peningastefnu sem við höfum stuðst við undanfarin ár. Menn eru líka að skoða aðra gjaldmiðla. Við höfum ekki enn séð hvað út úr því hefur komið. En hvað er það sem hv. þingmaður telur mikilvægast að við horfum til þegar við sköpum peningastefnu til framtíðar með íslensku krónunni?