139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[15:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er stórt spurt.

Ég get tekið undir það að það virðist ekki vera til plan af hálfu ríkisstjórnarinnar um að afnema gjaldeyrishöftin, planið virðist vera það að halda þeim áfram. Það er í sjálfu sér eitthvað sem við þurfum að spyrja okkur að. Peningamálastefna sú sem nú er rekin hefur vitanlega verið við lýði mjög lengi á Íslandi. Ef ég veit rétt er núverandi seðlabankastjóri einmitt einn af höfundum þeirrar stefnu. Ef það er rangt hjá mér leiðréttir það einhver, vona ég. En ég veit ekki betur en svo sé.

Þegar við horfum til þess hvaða leið við eigum að fara með íslenskt efnahagslíf hljótum við að þurfa að setjast niður og kortleggja hvað það er sem er okkur mikilvægast. Hvað er það sem skiptir okkur mestu máli til að viðhalda samfélagi sem tryggir öllum íbúum landsins viðunandi lífsskilyrði? Þá þurfum við vitanlega að horfa til atvinnuveganna og hvernig þeim verður best borgið, í hvaða umhverfi þeir munu dafna best. Þar ætla ég ekki fyrir fram að útiloka einhverjar breytingar, alls ekki. Ef niðurstaðan verður sú að við þurfum að taka upp annan gjaldmiðil til þess að við getum séð landið þróast og vaxa, og að lífshamingja og lífsskilyrði íbúanna verði enn betri en er í dag, hljótum við að skoða það með opnum huga. En við megum samt ekki gleyma því að sú stefna sem hefur verið rekin undanfarna áratugi — segjum bara síðastliðna þrjá, fjóra áratugi — hefur nú bara skilað Íslandi á býsna góðan stað. Gleymum því ekki.

Gleymum því ekki að þegar efnahagshrunið varð hér 2008 bjuggum við við mjög gott innra kerfi. Við bjuggum við samfélag þar sem hægt var að lágmarka þann skaða sem annars hefði orðið hjá einstaklingum (Forseti hringir.) og fyrirtækjum.