139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[15:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Vitanlega þurfum við að tryggja þetta samtal, ef þannig má orða það, milli ríkisfjármála- og peningamálastefnu, það er alveg ljóst. Það er mjög óeðlilegt ef það er togstreita þar á milli, að aðilar fari hvor sína leið. Til þess að við ráðum við það verkefni sem við höfum hér, að byggja upp traust og öflugt samfélag, þurfa þessir aðilar að tala saman og horfa í svipaða átt.

Það er hins vegar mikilvægt fyrir okkur að staldra við og velta því fyrir okkur kannski jafnvel á þessum tímapunkti — breytingar í íslenskum atvinnuháttum, breytingar í íslensku atvinnulífi, kalla á það að þessir hlutir séu endurskoðaðir með opnum huga. Við vitum hvar við höfum sjávarútveginn, við vitum um iðnaðinn og við vitum um landbúnaðinn.

Ferðaþjónustan er vaxandi. Við höfum hér öflugan hugverkaiðnað. Það eru ýmsir þættir sem eru farnir að hafa meiri áhrif á íslenskt efnahagslíf og samfélag en þeir höfðu bara fyrir fimm árum, hvað þá 10 árum eða 15. Þannig að það kann að vera að peningamálastefna og jafnvel stefna í ríkisfjármálum þurfi að aðlagast og taka breytingum hreinlega út frá breyttum tímum. En það er athyglisvert að sú gagnrýni sem var uppi á þá peningamálastefnu sem var rekin hefur mikið til legið í láginni eftir að nýr seðlabankastjóri tók við völdum, þó svo að þar sé á ferðinni höfundur þeirrar stefnu sem var og er rekin. Hver er skýringin á bak við það? Við hljótum að velta því fyrir okkur.

Hér átti allt að batna og leysast í þessum málum þegar skipt var um stjórn í Seðlabankanum. En hvað hefur gerst? Handritshöfundurinn var færður upp.