139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[15:39]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum um gjaldeyrismál og tollalögum, með síðari breytingum. Umræðan hér í dag hefur verið mjög fróðleg. Það sem skortir þó er einhvers konar afstaða frá meiri hlutanum hér í þinginu. Ég sakna þess að sjá ekki neinn fulltrúa Samfylkingarinnar á mælendaskrá. Reyndar hefur formaður efnahags- og skattanefndar, hv. þm. Helgi Hjörvar, blandað sér lítillega í umræðuna í formi andsvara, en hins vegar sér þingmanna úr Vinstri grænum hvergi stað. Það væri mjög nauðsynlegt að fá afstöðu þeirra fram í þessari umræðu. Væntanlega hafa einhverjir þeirra tekið til máls í umræðunni í vor, en hins vegar er talsverður tími liðinn frá því sú umræða átti sér stað og ýmislegt hefur breyst. Í ljósi þeirrar ofuráherslu sem samstarfsflokkurinn, Samfylkingin, leggur á að Ísland gangi í Evrópusambandið og taki upp evru, að það sé hin eina lausn, er nauðsynlegt fyrir umræðuna, svo að hún nái að þróast, og við náum að skilja hvaða stefna er í gangi hjá ríkisstjórninni, að fá einhvern úr Vinstri grænum til að koma og útskýra fyrir okkur þeirra sýn á þessi mál. Hver er framtíðarsýn Vinstri grænna í gjaldmiðilsmálum? Er það sama stefna og Samfylkingin hefur, þ.e. að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru?

Ég gat ekki skilið hv. þm. Helga Hjörvar öðruvísi en svo að valið stæði milli þess að vera með krónuna í höftum um alla eilífð eða taka upp evruna með því að ganga í Evrópusambandið. Þetta er slík yfirlýsing af hálfu formanns nefndarinnar að ég tel að Vinstri grænir, þingmenn þess ágæta flokks, verði hreinlega að koma inn í umræðuna og segja okkur frá því hvort þetta sé jafnframt stefna Vinstri grænna.

Virðulegi forseti. Það er þannig með höft, og þá sérstaklega gjaldeyrishöft, að þau eiga það til að festast í skorðum. Þótt þeim sé í upphafi ætlað að vera tímabundin eins og hér um ræðir — höftin voru sett á haustið 2008 og voru hluti af neyðarráðstöfun til að koma í veg fyrir hrun á gengi krónunnar við afar sérstakar aðstæður sem allir Íslendingar þekkja — er ljóst að þau eru að festa sig í sessi. Ég sé ekki að nokkur yfirlýsing eða stefna sé komin fram af hálfu stjórnvalda um það hvernig við ætlum að komast út úr þessari stöðu. Ég hef ekki séð slík viðhorf, hvorki af hálfu ríkisstjórnarflokkanna né frá Seðlabanka Íslands. Þetta frumvarp virðist helst vera í þá átt að viðhalda þessum höftum og festa þau enn frekar í sessi. Af því hef ég talsverðar áhyggjur.

Það er ekkert einfalt mál að afnema gjaldeyrishöftin, alls ekki. En það verður samt að koma fram skýr yfirlýsing hér um að það sé stefnan. Við hljótum að ætla okkur að gera það. Það væri einfaldlega heiðarlegt og skýrt af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að lýsa því yfir og leggja hreinlega á borð fyrir okkur áætlun um það hvernig og hvenær það skuli gert. Það verður afskaplega sársaukafullt þegar farið verður í þetta, en engu að síður nauðsynlegt. Það verður erfitt fyrir alla Íslendinga mundi ég telja, það munu allir finna fyrir því. En það er þó skárra að vita af því að slíkt sé yfirvofandi, þá geta menn farið að búa sig undir það. Við getum þá öll reynt að taka þátt í því sameiginlega að takmarka tjónið og reyna að finna út úr því hvernig best er að ráðast í þetta stóra verkefni.

Umræðan hér í dag, að því litla leyti sem stjórnarliðar hafa blandað sér í hana, snýst aðallega um það villuljós sem enn og aftur, eftir allan þennan tíma, er veifað framan í þjóðina og okkur hér í þinginu, að lausnin sé að ganga í Evrópusambandið, taka upp evru og þá sé hægt að losna við höftin og það sé eina leiðin til að ná stöðugleika hér í íslenska hagkerfinu. Þessu er ég ósammála.

Við sjálfstæðismenn höfum lagt fram efnahagstillögur hér í þinginu. Ein af þeim tillögum fól í sér að settur yrði á fót samráðsvettvangur allra flokka með það að markmiði að fara yfir gjaldmiðilsmálin, fara yfir það hvernig gjaldmiðilsmálum okkar væri best komið til framtíðar. Þessi tillaga var lögð fram fyrir um tveimur árum. Ef þá strax hefði verið farið í þessa vinnu værum við væntanlega nú þegar komin fram með einhverja greiningu á því hvaða leiðir hægt væri að fara, með einhverjar niðurstöður sérfræðinga um það hvaða leiðir eru í boði. Þá gætum við hér í þinginu farið á yfirvegaðan hátt yfir það hvernig við ætluðum að taka á þessu. Þetta var því miður ekki gert þrátt fyrir ágætar undirtektir frá ýmsum þingmönnum annarra flokka, heldur var einfaldlega farið í það, eins og menn hafa heyrt í umræðum í dag, að einblína á þessa einu lausn Samfylkingarinnar.

Ég hreinlega skil ekki hvernig samstarfsflokkurinn, Vinstri grænir, getur látið þetta yfir sig ganga. Ætla menn í þeim flokki, sem ég hélt nú að hefði auglýst sig fyrir síðustu kosningar sem harða andstæðinga þess að Ísland gengi í Evrópusambandið, virkilega að sitja undir þessu? Ég er hreinlega gáttuð á þögn Vinstri grænna í þessari umræðu og einhvers konar afstöðuleysi til málsins, það eigi bara að sitja og bíða eftir niðurstöðu úr aðildarviðræðunum. Jú, jú, það kemur eitthvað út úr því. Þegar atkvæðagreiðslan átti sér stað um Evrópusambandstillöguna á sínum átti að „kíkja í pakkann“, sögðu þingmenn Vinstri grænna, og athuga hvað væri í boði. Nú er því enn og aftur veifað framan í íslensku þjóðina, og okkur hér í þinginu, sem erum að reyna að taka þátt í þessari umræðu, að eina leið Íslendinga út úr vandanum sé að taka upp evru og ganga í Evrópusambandið.

Í ljósi þeirrar umræðu er vert að halda því til haga að ég spurði þáverandi viðskiptaráðherra, Gylfa Magnússon, um það hvenær hann teldi að við Íslendingar, hefðum við áhuga á að taka upp evru, mundum uppfylla þau skilyrði sem til þess þarf. Ég er þeirrar skoðunar að þau skilyrði, Maastricht-skilyrðin, séu ágæt — fínt markmið að stefna að því að uppfylla þau. Ísland þyrfti jafnvel að setja sér strangari viðmið meðan það er að komast upp úr lægðinni sem það er í, ýmsir sérfræðingar hafa bent á það. Það má líta á þessi skilyrði sem eins konar heilbrigðisvottorð fyrir hagkerfi sem er í góðu standi. Sá ágæti ráðherra svaraði því á þeim tíma að hann teldi að það væru um það bil 15 ár þar til Ísland mundi uppfylla þessi skilyrði.

Nú kalla ég eftir því að hv. þm. Helgi Hjörvar svari mér því hvort hann hafi eitthvert annað mat, einhverja aðra skoðun, á því hversu langur tími sé í að Ísland uppfylli Maastricht-skilyrðin. Það er einfaldlega nauðsynlegt til að maður botni eitthvað í þessum yfirlýsingum frá talsmanni ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli og til að maður skilji hvaða stefna er uppi á borðinu hjá ríkisstjórnarflokkunum. Ef það er þannig, eins og mér heyrðist í umræðunni áðan, að valið standi á milli þess að íslenska krónan sé höfð í höftum eða við göngum í Evrópusambandið og tökum upp evru — og að teknu tilliti til ummæla þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra um að það séu 15 ár í þetta — má þá skilja umræðuna á þann veg að við séum að tala um krónu í höftum næstu 15 árin? Er það framtíðarsýn ríkisstjórnarflokkanna? Eða hvernig á maður að skilja þetta allt saman í samhengi?

Frú forseti. Í dag stendur yfir mikil umræða um krónuna og gjaldeyrishöftin. Það hefur komið fram, meðal annars í máli framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, að nauðsynlegt sé að leggja fram tímasetta áætlun um það hvernig komast eigi út úr höftunum, að þannig verði hægt að komast að réttu gengi krónunnar — og þetta er rétt. Við verðum að koma þessu upp á borðið og hafa eitthvert plan. Þetta verður, eins og ég sagði áðan, gríðarlega erfitt, það mun taka í. En það er þá hægt að byrja á því að setjast niður og gera einhverja áætlun um hvernig eigi að bregðast við þeim vandkvæðum og þeim erfiðleikum sem munu koma upp í kjölfarið fyrir alla íslenska skuldara og eigendur fjármagns hér á landi.

Það ríkir skuldakreppa í heiminum. Ýmsir aðilar óttast að það verði annað hrun. Við skulum bara vona að svo verði ekki. Menn eru að leita inn í trausta gjaldmiðla með sitt fjármagn. Það er ekki evran sem menn horfa til. Skiljanlega er það þannig miðað við ástandið á þeim gjaldmiðli. Þar eru menn að horfa á svissneska frankann og japanska jenið. Á sínum tíma var mikið talað hér um kanadíska dollarann, bandaríska dollarann og fleiri gjaldmiðla. Hefðum við á sínum tíma, fyrir tveimur árum, þegar tillaga kom fram um það frá okkur sjálfstæðismönnum, sest yfir þetta mál, öll saman, og reynt að leita lausna í staðinn fyrir að horfa í blindni í eina átt, værum við kannski komin með eitthvað vitrænt hér til að ræða um, einhver gögn í málinu. Það er kannski ekki of seint að skipta um skoðun.

Ég hvet hv. þingmenn allra flokka, og er ég þá sérstaklega að tala til þingmanna Vinstri grænna, sem ég átta mig ekki alveg á hvar standa í þessu máli, til að taka upp þessa tillögu okkar sjálfstæðismanna. Þótt seint sé í rassinn gripið er það þó skárra en sitja og gera ekki neitt; það er ekki ábyrg afstaða að horfa bara á Samfylkinguna tala um evruna og veifa henni framan í íslensku þjóðina sem einhvers konar skyndilausn á vanda okkar. Ég hvet þingmenn Vinstri grænna enn og aftur til að koma hér í þingsalinn, blanda sér í umræðuna og fara yfir það með okkur hvernig þeir telja rétt að fara í að afnema gjaldeyrishöftin, ef það er þá þeirra skoðun að afnema eigi gjaldeyrishöftin, ég er ekki heldur með það á hreinu.

Ég tel farsælast að grípa niður í efnahagstillögur okkar sjálfstæðismanna, byrja á því að setjast niður með okkar helstu sérfræðingum, fá jafnvel erlenda ráðgjöf og reyna að meta hvað sé heppilegast fyrir okkur til lengri tíma. Það eru fleiri leiðir til. Ég fullvissa ykkur öll sem á mál mitt hlýðið um að aðrar leiðir eru til en þær að hafa íslenska krónu um aldur og ævi í höftum eða að taka upp evru, væntanlega eftir 15 ár og með því að ganga í Evrópusambandið. Það er svo margt annað sem slík skuldbinding inniber að það er einfaldlega ekki hægt að stilla þingmönnum eða íslensku þjóðinni upp við þann vegg að velja annaðhvort Evrópusambandið, með öllu því sem því fylgir, út frá þeim rökum einum að við verðum að taka upp evruna — velja milli þess og þess að hafa íslensku krónuna í höftum.

Eins og þetta mál verður skilið er það til þess fallið að festa gjaldeyrishöftin í löggjöf okkar. Ég hef rætt um það hér í þinginu, fyrr á þessu septemberþingi, að það voru alls kyns ráðstafanir, alls kyns nýmæli, sem fóru inn í löggjöf okkar í kringum efnahagshrunið. Það var fullt af atriðum sem voru lögfest á stuttum tíma sem fengu ekki mikla umfjöllun hér í þinginu, einfaldlega vegna þess að verið var að bregðast við neyðarástandi sem hér ríkti. Það þarf að mínu mati að fara yfir öll þessi atriði aftur. Þar erum við að tala um allt frá stórum málum, við ræðum hér um gjaldeyrishöftin, yfir í mál sem varða t.d. hlutaatvinnuleysisbætur sem við ræddum hér fyrr í vikunni. Ég tel að á skipulegan hátt þurfi að setjast yfir allar þær breytingar sem fóru í gegnum þingið — ég held það sé orðið tímabært — og skoða hvort þetta séu atriði sem við viljum hafa viðvarandi í löggjöf okkar, reyna þá að setja niður fyrir okkur markmiðin með því og velja svo og hafna. Að mínu viti eru gjaldeyrishöftin hlutur sem við eigum að hverfa frá. En ég segi enn og aftur vegna þess að það þarf að halda öllu til haga: Það verður sársaukafullt og það verður erfitt fyrir alla Íslendinga en engu að síður algjörlega nauðsynlegt.

Ég tel að best fari á því, í þeirri vinnu að yfirfara þessa löggjöf og öll þau nýmæli sem komu inn í íslenska löggjöf í kjölfar efnahagshrunsins, að forsætisnefnd setjist niður og setji málið í farveg. Ég beini því til forseta að koma því til nefndarinnar. Ég vonast til að nefndin ræði það, þingmenn úr allnokkrum flokkum hafa tekið undir að nauðsynlegt sé að fara í þessa vinnu, að það sé orðið tímabært.

Nú, þegar miklar breytingar eru fram undan á nefndakerfi Alþingis og þingsköpin eru að taka miklum breytingum, óttast maður að vinna sem þessi týnist og lendi kannski ekki efst í forgangsröðuninni. Ég tel að þetta sé afskaplega mikilvægt vegna þess að rökstuðningurinn fyrir mörgum af þessum ákvörðunum var byggður á neyðarástandi sem hér skapaðist. Það var verið að bregðast við ástandi dagsins og mörg þessara mála fóru í gegnum þingið án mikillar umræðu og án þess að einhvers konar stefnumótun eða hugmyndavinna færi fram. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál og varðar okkur öll og flest þau mál sem ratað hafa í umræðuna á þessu septemberþingi.

Virðulegi forseti. Ég kalla enn og aftur eftir því að þingmenn Vinstri grænna blandi sér í umræðuna. Ég get ekki séð að nokkur þeirra hafi komið inn í salinn meðan á ræðu minni stóð þannig að þeir virðast ekki svara kalli mínu. Dagurinn er ekki enn að kveldi kominn. Ég hvet þá þingmenn Vinstri grænna sem eru að fylgjast með umræðunni til að taka þessari áskorun. Það er einfaldlega, eins og ég sagði áðan, nauðsynlegt að fá fram sjónarmið þeirra. Hér er einn hv. fyrrverandi alþingismaður Vinstri grænna í salnum, ég veit ekki hvort hann getur, sá ágæti þingmaður Ásmundur Einar Daðason, upplýst okkur um hvort einhverra svara sé að vænta úr þeim herbúðum. Það er þó varla að hann hafi mikla innsýn í hugarfar Vinstri grænna nú eins og hann hafði áður. En engu að síður er þetta síðasta hálmstráið. Ég sé engan mættan hér í salinn.

Virðulegi forseti. Við skulum ekki láta það gerast að gjaldeyrishöftin verði viðvarandi í íslensku samfélagi. Við skulum leggja fram tímasetta áætlun um það hvernig þau verða afnumin. Við skulum í fyrsta lagi gefa út yfirlýsingu um að þau verði afnumin. Síðan skulum við setjast yfir það hvernig við takmörkum það tjón sem óhjákvæmilega mun fylgja þeirri aðgerð og reyna að gera okkar besta til að við komum sterkari út úr þessu, vegna þess að það er eina leiðin. Leiðin er ekki sú að velja annaðhvort krónu í höftum um aldur og eilífð eða að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru og leysa vandann með því. Það eru því miður engar skyndilausnir til á vanda okkar. Það eru því miður engar slíkar lausnir til. Ég taldi hreinlega að við hefðum öll lært það í kjölfar efnahagshrunsins að reyna að rökstyðja okkar ákvarðanir betur en svo að veifa einhverjum skyndilausnum framan í íslensku þjóðina. Því miður virðist það ekki vera niðurstaðan í þessu máli. Það er mjög miður.

Herra forseti. Ég get ekki stutt þetta mál og vonast til að umræðan fái að þroskast enn frekar hér í dag. Ég kalla enn og aftur eftir afstöðu Vinstri grænna.