139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[15:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir ágæta ræðu. Hún kom víða við og ræddi sérstaklega um þessa nauðhyggju, að það megi eiginlega ekki hugsa eitt eða neitt nema blanda Evrópusambandinu í það, að engar lausnir séu til nema evran í gegnum Evrópusambandsaðild. Ég get alveg séð fyrir mér evruna án aðildar að Evrópusambandinu en þá þurfum við að kaupa hana.

Eitt sem hv. þingmaður sagði stakk mig dálítið, hún sagði að það yrði sársaukafullt að afnema gjaldeyrishöftin. Ég held að menn þurfi að skoða miklu meiri líkindafræði og sálfræði í því samhengi. Þegar maður kastar upp teningi kemur stundum upp sex og stundum einn, og þegar maður afnemur gjaldeyrishöftin hækkar stundum gengið og lækkar stundum. Ég held að raungengi íslensku krónunnar sé orðið svo lágt, að eignir og tekjur Íslendinga séu orðnar svo lágt metnar, að margir muni sjá tækifæri til að koma inn til þess að kaupa eignir, eins og sumir eru reyndar að gera núna, og að það muni vega á móti miklu falli krónunnar, auk þess sem þeir sem eiga hérna íslenskar krónur vilja ekkert endilega selja þær fyrir hvað sem er. Það verður ekkert endilega hrun. Ég held nefnilega að ef menn fara vel í gegnum sálfræði og líkindafræði og sérstaklega ef menn hafa eitthvað að leiðarljósi, þ.e. sjá fyrir sér hvað tekur við, muni krónan ekkert endilega falla. Þetta verður ekkert endilega sársaukafullt. Það getur samt orðið það, það eru ákveðnar líkur á því.

Ég vildi bara undirstrika að þetta getur orðið sársaukafullt, en það þarf ekki endilega að verða það, sérstaklega ekki ef í landinu er styrk stjórn sem menn treysta, t.d. stjórn Sjálfstæðisflokksins.