139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:01]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa athugasemd. Það er rétt að enginn veit nákvæmlega hvað mun gerast. Sömuleiðis er það rétt hjá hv. þingmanni, og ég vona að það hafi komið skýrt fram í ræðu minni, að við verðum að leggja fram einhverja framtíðarsýn. Fyrsta ákvörðunin sem við þurfum að taka er að afnema gjaldeyrishöftin, það á að vera efst á blaðinu í framtíðarsýninni. Síðan þarf að leggja fram áætlun um það með hvaða hætti það verði gert og þá þurfum við að búa okkur undir það versta, en auðvitað vona það besta, og gæta þess að tala einfaldlega hreint út. Þetta getur orðið mjög sársaukafullt.

Ef aðstæður verða okkur hins vegar hliðhollar gæti þetta orðið auðveldara en við sjáum fyrir okkur. Ég held að í þessu máli sé einfaldlega rétt að tala skýrt, hafa skýra stefnu og tala um það hvert við ætlum að fara, hver ávinningurinn verður á endanum, hvernig samfélagið okkar mun þróast við þessa afléttingu haftanna, það er grundvallaratriði í þessu, og hafa svo hið fornkveðna í huga að búa sig undir það versta en vona það besta.