139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt þetta sem ég vildi leggja áherslu á, það þarf að liggja fyrir framtíðarsýn og von og traust. Það er það sem skortir illilega á í dag, það vantar mikið traust í þjóðfélagið.

Ef ég ætlaði að selja bílinn minn væri langbest fyrir mig að setja þá tegund af bílum í höft, helst samt alla bíla, að það væri bannað að selja bíla. Síðan mundi ég veita undanþágu frá því til að einhver gæti keypt bílinn minn, tímabundna undanþágu í tvo mánuði til að kaupa svona bíl, og þá er ég nærri viss um að verðið á honum mundi hækka. Höft virka nefnilega til hækkunar á vörunni, gjaldeyri í þessu tilfelli. Höft virka oft til hækkunar á þeirri vöru sem sett er í höft. Það er nokkuð sem við þurfum að ræða málefnalega, hversu miklar líkur eru á því að gengi krónunnar styrkist við það að höftum verði aflétt. Hvað eru miklar líkur á að hún falli? Ég hygg að þegar menn eru búnir að fara nákvæmlega í gegnum það séu meiri líkur en ekki á að gengi krónunnar styrkist og að þetta muni ekki hitta heimilin í landinu eins illa fyrir og menn telja. Þess vegna gerði ég athugasemd við það þegar hv. þingmaður sagði að þetta yrði sársaukafullt. Það getur nefnilega orðið allt að því gleðistund þegar gjaldeyrishöftunum verður aflétt ef gengi krónunnar skyldi nú styrkjast í kjölfarið. Ég yrði ekki hissa og tel meira að segja töluverðar líkur á því.