139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:06]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrstu þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og byrja á að segja að umræðan í dag hefur verið mjög málefnaleg og gagnleg og gaman að sjá hversu margir taka þátt í henni.

Hins vegar vil ég taka undir með hv. þingmanni þegar hún bendir á hvað hér eru fáir stjórnarliðar. Það er enginn frá Vinstri grænum sem hyggst taka þátt í umræðunni, enda er vel hægt að skilja það því ekki liggur alveg skýrt fyrir hver gjaldmiðilsstefna eða gjaldeyrismálastefna Vinstri grænna er.

En ég vil þó, af því að hv. þingmaður fór aðeins inn á hver stefna Vinstri grænna væri og beindi máli sínu til mín sem fyrrverandi þingmanns Vinstri grænna, bera af mér og öðrum hv. þingmanni sakir vegna þess að á síðasta þingi flutti sá sem hér stendur ásamt hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur þingsályktun sem fól það í sér að fram færi úttekt á því — ég gerði víðtæka úttekt á möguleikum Íslands í gjaldmiðilsmálum — hvort okkur væri betur borgið með íslensku krónunni og hvað þyrfti að gera til þess miðað við aðra gjaldmiðla.

Hvað aðra þingmenn Vinstri grænna snertir held ég að hv. þingmaður verði að beina máli sínu til þeirra.

Það sem hefur verið svolítið einkennandi í umræðunni í dag og mig langar að koma inn á er að hér verði gjaldeyrishöft eða evra, hér verði gjaldeyrishöft um aldur og ævi eða evra. Mig langar því að spyrja hv. þingmann út í ummæli sem hæstv. efnahagsráðherra lét falla í ágúst síðastliðnum í viðtali við franska dagblaðið Le Monde þar sem hann sagði að með því að ganga í Evrópusambandið dragi það úr óstöðugleika okkar og auki samkeppnishæfni en fyrst og síðast sé hagnaðurinn fólginn í sterkari gjaldmiðli, evrunni, sem muni veita óendanlega meiri stöðugleika. Þetta sagði hæstv. efnahagsráðherra á sama tíma og nánast neyðarfundir voru um alla Evrópu í sambandi við evruna. (Forseti hringir.)

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að þarna hafi hæstv. efnahagsráðherra pólitíska hagsmuni (Forseti hringir.) að leiðarljósi fremur en þjóðhagslega?