139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:09]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og biðst afsökunar á því að reyna að knýja fram svör um afstöðu Vinstri grænna gegnum þann ágæta fyrrverandi þingmann flokksins.

Varðandi spurninguna um ummæli efnahagsráðherra þá ætla ég engum sem hér situr í þinginu að vera með einhverja andþjóðhagslega hagsmuni í störfum sínum, hvorki á þingi né fyrir íslensku þjóðina.

Engu að síður tel ég það slæmt að vera búið að festa sig svo í sessi í umræðunni og einblína svo á þessa einu mögulegu lausn, eins og þingmenn Samfylkingarinnar hafa gert, að erfitt sé að komast út úr þeirri umræðu þegar aðstæður breytast eins hratt og raun ber vitni og sem við höfum séð undanfarin missiri varðandi evruna. Það eru miklar áhyggjur uppi um stöðu evrunnar og hvernig þetta allt saman muni enda.

Mikil umræða er um að menn séu hugsanlega að reyna að fara yfir í svissneska franka og að sá litli, tiltölulega litli gjaldmiðill, komist í vanda vegna slíkrar sóknar. Styrking svissneska frankans gegn bæði evru og dollar hefur mikil áhrif á útflutning í Sviss miðað við fréttir dagsins. Ég vil því ekki leggja þá afstöðu eða þau orð í munn hæstv. ráðherra að einhver annarleg sjónarmið séu þar að baki. En menn verða stundum að hugsa út fyrir boxið. Það er oft erfitt þegar menn eiga allt undir, líkt og kom fram í máli fyrrverandi þingmanns í Kastljósinu í vikunni að ríkisstjórnarsamstarfið snúist í kringum aðildina að ESB (Forseti hringir.) og þess vegna hafi verið stofnað til þess samstarfs.