139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:11]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég er ekki að væna hæstv. ráðherra um að annarleg sjónarmið séu að baki. En telur ekki hv. þingmaður að mjög erfitt sé að vinna að afnámi gjaldeyrishafta á sama tíma og eina lausnin sem horft er til sé upptaka evru sem gjaldmiðils? Og að menn noti það jafnan sem rök fyrir því að við verðum að ganga í Evrópusambandið að evran sé okkar eina lausn? Er ekki veruleg hætta á að menn fari að missa marks á því hvert hið raunverulega markmið er með starfi sínu? Er ekki mjög slæmt þegar hæstv. ráðherra efnahagsmála fer erlendis og segir að krónan sé beinlínis handónýt? (Efnahrh.: Ég sagði þetta nú heima.) Já, heima eða erlendis. Segir að krónan sé handónýt. Hver er trú manna á þeim gjaldmiðli þegar svo er? Og á sama tíma og meiri hluti þjóðarinnar er algjörlega ósammála þeirri vegferð sem er í gangi.

Hvernig metur hv. þingmaður að þetta geti einfaldlega farið saman, að menn fari svona um og hafi ekki meiri trú á því sjálfir en svo að þeir fara um í fjölmiðla innlenda sem erlenda og tilkynna mönnum að það sé nær vonlaust að afnema gjaldeyrishöftin. Það sé nær vonlaust að vera hér með íslenska krónu. Þetta fer ekki alveg saman. Ég næ þessu ekki alveg.