139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:13]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef margsinnis lýst því yfir í þessum ræðustól að það sé ábyrgðarhluti af hálfu þeirra þingmanna sem hafa verið að tala niður íslensku krónuna, að ábyrgðarhluti sé að gera það. Þessi umræða átti sér m.a. stað í þinginu þegar ég beindi fyrirspurn, og ég fór yfir það í ræðu minni áðan, til þáverandi ráðherra, Gylfa Magnússonar, um að við mundum ekki uppfylla Maastricht-skilyrðin næstu 15 árin. Þá voru menn á sama tíma að tala niður íslensku krónuna miðað við þá stefnu Samfylkingarinnar að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna, væntanlega eftir 15 ár. Ef maður skoðar þetta allt saman í samhengi þá var verið að tala niður íslenska gjaldmiðilinn. Ég tel það ekki forsvaranlegt og ég hef margoft gert athugasemdir við þann málflutning ýmissa þingmanna Samfylkingarinnar í þessum ræðustól. Þetta er einfaldlega eitthvað sem menn eiga ekki að gera.

Ég hvet menn til þess að fara að tala aðeins varlegar. Menn hafa kannski gert það undanfarin missiri þegar þeir eru farnir að setja eitthvert samasemmerki milli þess sem þeir segja einn daginn og annað hinn daginn um að Maastricht-skilyrðin verði ekki uppfyllt næstu 15 árin.

Kjarni málsins er einfaldlega þessi: Það hefði verið farsælast að spara aðeins yfirlýsingarnar, spara sér það að mynda ríkisstjórn sem snýst í kringum eitt mál, heldur fara aðeins yfir rökin um hvaða kostir voru í stöðunni og reyna síðan að komast að skynsamlegri niðurstöðu. Því miður var það ekki gert heldur var annar stjórnarflokkurinn, Vinstri grænir, dreginn inn í þetta stjórnarsamstarf á þeim forsendum að nú væri verið að kíkja í pakkann meðan hinn stjórnarflokkurinn keyrir þetta mál áfram af slíkum krafti að ekki sé nein önnur lausn á okkar vanda en að ganga í Evrópusambandið.