139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:15]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við tökum nú til við að nýju að ræða frumvarp um gjaldeyrismál og tollalög, gjaldeyrishaftamálið sem við höfum kallað það okkar á milli í þinginu. 2. umr. þess hófst í júní. Ríkisstjórnarflokkarnir lögðu frumvarpið fram einhvern tímann í vetur, í lok mars ef mig misminnir ekki, og hefur það síðan verið til umfjöllunar. Fyrir þinghlé, sumarhlé, náðist samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að málinu skyldi ekki ljúka með þeim hætti sem ríkisstjórnin lagði upp með, að lögfesta þessi höft með þeim hætti sem boðað er í frumvarpinu til fimm ára, heldur var fallist á breytingartillögu sem laut að því að núgildandi ástand yrði framlengt, reglur Seðlabankans yrðu framlengdar til 30. september. Við frestuðum umræðunni og höldum henni áfram í dag. En ég skildi málið þannig að það væri liður í þeirri lendingu sem náðist í sumar að sumarið yrði notað til að fara betur yfir málið og kanna aðrar leiðir í þessum málum en lagðar eru til með þessari lögfestingu til fimm ára, framlengingu haftanna til fimm ára sem við í stjórnarandstöðunni erum algjörlega mótfallin og kemur glögglega fram í fjölmörgum umsögnum að eru þeim aðilum heldur ekki að skapi.

Fyrst hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er í salnum, og ég geri ráð fyrir að hann muni á einhverju stigi taka þátt í umræðunni, óska ég eftir að hann fari yfir það hvaða vinna fór fram í sumar. Var einhver vinna sett af stað? Ég veit ekki til þess að stjórnarandstaðan hafi verið kölluð að því borði a.m.k. Ég vil biðja hæstv. ráðherra um að upplýsa okkur um það hvort sumarið hafi verið nýtt til þess að athuga aðra möguleika í þessum málum en þá sem við erum tekin til að nýju við að ræða, og eins og mönnum má vera ljóst af þeirri miklu umræðu sem hefur farið fram hér í dag höfum við í stjórnarandstöðunni ekki skipt um skoðun og erum enn þá andvíg þessu máli sem sést best á nefndarálitum. Það eru nokkur nefndarálit, ég vísa sérstaklega til nefndarálits 3. minni hluta efnahags- og skattanefndar sem í eru fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og skattanefnd. Þar er tekið sterkt til orða í niðurlagi álitsins, með leyfi forseta:

„3. minni hluti leggur því til að frumvarpið verði alls ekki samþykkt.“

Það er óvenjulega sterkt til orða tekið og lýsir kannski mikilvægi þessa máls. Farið hefur verið vel yfir það í þessari umræðu hver forsaga málsins er, af hverju við erum með höft. Við þekkjum þá umræðu. Við eigum kannski ekki að dvelja mikið við hana en þó er nauðsynlegt að rifja upp að þetta var algjör neyðarráðstöfun á þeim tíma. Síðan eru liðin þrjú ár. Gleymum því ekki að þarna var um að ræða ákvörðun sem var tekin, þetta var erfið ákvörðun en þetta var liður í þeim aðgerðum sem þurfti að bregðast við eftir bankahrunið og í framhaldi af setningu neyðarlaganna. En þeim var, eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fór vel yfir í ræðu sinni í dag, ætlað að vara í stuttan tíma. Þetta var þar að auki ætlað sem heimild til Seðlabankans sem við vonuðum öll að þyrfti aldrei að beita. Það fór nú eins og það fór og þetta er orðið þannig mál að það vill vefja upp á sig og við höfum séð það. Það hefði þurft að koma með frumvörp inn í þingið til að hnykkja á gjaldeyrishöftunum vegna þess að þau hafa lekið. Það hefur þurft að setja stífari reglur vegna þess að, ja, ætli það sé ekki bara í mannlegu eðli að reyna að bjarga sér og finna undankomuleiðir undan reglum sem menn eru í hjarta sínu ósammála.

Auðvitað viljum við öll, og ég ætla ekki ríkisstjórnarflokkunum neitt annað, afnema þessi höft. Við viljum öll samfélag sem við erum vön og viljum og gerum kröfu til. Við viljum samfélag þar sem frelsi ríkir. Við erum vön að geta ferðast út um allan heim, gert alla hluti sem okkur lystir án þess að stóri bróðir, án þess að ríkisvaldið hafi með einhverjum hætti afskipti af því. Ef við skoðum söguna, ef við skoðum íslenska efnahagssögu, hvað höfum við þá lært? Síðast þegar gjaldeyrishöft voru á Íslandi vöruðu þau í 60 ár, í nánast heilan mannsaldur voru gjaldeyrishöft sem eflaust á þeim tíma voru sett og ætlað að vera í stuttan tíma. Í 60 ár máttu Íslendingar búa við þetta en svo tókst að afnema þau. Ég ætla ekki að segja börnunum mínum að við höfum ekkert lært og það hafi aftur þurft 60 ár til að afnema þessi gjaldeyrishöft. Þess vegna vil ég ekki taka þátt í að lögfesta reglur sem um þetta gilda, ekki í eitt ár og enn síður í fimm ár eins og lagt er til í þessu frumvarpi.

Með þessari lögfestingu, eins og rakið er vel í minnihlutaálitinu sem ég vísaði til og rakið er vel í fjölmörgum umsögnum eins og komið hefur fram í umræðunni í dag, er verið að gefast algjörlega upp á verkefninu. Það er engin trú á því að hægt verði að afnema þessi höft, engin trú. Ef trú væri á verkefnið væri tímalengdin ekki fimm ár. Þá fer maður að velta fyrir sér hvað búi að baki. Er það þannig, eins og fram kom í umræðum á fyrri stigum, að þetta snúist allt um ESB? Er það þannig að annar ríkisstjórnarflokkanna hafi það að leiðarljósi sínu — ég hef nú sagt stundum að Samfylkingin sé að verða einsmálsflokkur, að ESB-aðildin sé orðin eina málið vegna þess að svo virðist að fórna megi öllum öðrum markmiðum? Það má fórna erlendri fjárfestingu inn í landið. Það má fórna nýtingu orkuauðlinda. Það má fórna atvinnutækifærum sem fela í sér annaðhvort að einkaaðilar komi að málum eða þau snerta hernað af einhverju tagi eins og við þekkjum, eins og við höfum rætt svo oft í þessum sal. Samfylkingin er tilbúin til að fórna svo miklu fyrir þetta markmið að koma okkur inn í Evrópusambandið.

Snýst þetta bara allt um það? Snýst þetta bara um það að með því að viðhalda gjaldeyrishöftunum sé ætlunin sú að koma okkur í þá stöðu að eina leiðin út úr þeim verði að ganga í Evrópusambandið og taka upp nýjan gjaldmiðil — taka upp evruna? Þetta er samsæriskenning en samsæriskenningar eru góðar og það er stundum sannleikskorn í þeim. Eitt er alla vega víst að það að lögfesta þetta — ég kallaði hér eftir svörum hæstv. ráðherra um hvort sumarið hefði verið nýtt í að kanna aðra möguleika til að koma með sem valkosti fyrir þessari lögfestingu — ef á að lögfesta þetta til fimm ára er verið að gefast upp.

Ef við víkjum aðeins aftur að ræðu formanns Sjálfstæðisflokksins fyrr í dag þá hvatti hann til samstarfs. Hann hvatti til þess og fór reyndar vel yfir það hve tíminn hefði verið illa nýttur frá því að höftin voru sett þegar lagt var til og hafist var handa við að vinna við mótun nýrrar peningastefnu þar sem upptaka nýs gjaldmiðils er að sjálfsögðu ekki slegin út af borðinu, hvort sem það þurfi endilega að vera með aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Allir möguleikar eru undir, skoðum alla möguleika eina ferðina enn, skoðum alla möguleika vegna þess að við sjáum öll að krónan okkar er lítill gjaldmiðill en við sjáum líka öll eða eigum a.m.k. að sjá það að krónan er sá gjaldmiðill sem við munum búa við næstu árin.

Það var forvitnilegt að lesa um þetta í fjölmiðlum í dag, vegna þess að það var verið að ræða gjaldeyrishöft á fleiri stöðum en á Alþingi. Í dag var fundur hjá Félagi viðskipta- og hagfræðinga þar sem þessi mál voru rædd. Ég átti þess því miður ekki kost að hlusta á erindin þar sem ég var hér við þessa umræðu þannig að ég hef vitneskju mína upp úr fjölmiðlum. Þar sagði Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, með leyfi forseta, að endurskoða yrði peningamálastefnuna en ljóst væri að við byggjum við krónuna næstu árin alla vega, hvað sem tæki síðar við. Þótt gengið yrði í Evrópusambandið væri ljóst að evra yrði ekki tekin upp hér á landi fyrr en eftir nokkuð mörg ár.

Þarna er framkvæmdastjóri samtaka sem hafa verið frekar hliðholl Evrópusambandsviðræðum, alla vega hingað til, að segja það hreint og klárt að við verðum að gera okkur grein fyrir því að við verðum með íslenska krónu í nokkur ár, hvernig svo sem fer fyrir þessari Evrópusambandsaðild.

Þá, svo ég víki aftur að ræðu formanns Sjálfstæðisflokksins, er mikilvægast að við tökum höndum saman núna og finnum sameiginlega hvað við þurfum að gera til að styrkja peningamálastefnuna. Við þurfum að fara yfir alla valkostina. Við megum ekki, það eru engin rök í þessu máli að segja eins og Samfylkingin eða hæstv. forsætisráðherra gerði hér einhvern tímann í vetur í fyrirspurn þegar hún var innt eftir stefnu sinni í peningamálum. Hún sagði: „Ég og Samfylkingin höfum skýra stefnu í peningamálum. Við viljum ganga í Evrópusambandið og taka upp evru.“ Gott og vel. Það mundi ég segja að væri ágætisframtíðarstefna fyrir Samfylkinguna en eins og fram kom í máli framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins gerist þetta ekki fyrr en eftir nokkur ár í besta falli. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að verkefni dagsins í dag hlýtur að vera að skoða möguleikana og finna besta valkostinn fyrir Ísland. Besti valkosturinn fyrir Ísland er svo sannarlega ekki sá að viðhalda gjaldeyrishöftum með þeim hætti að lögfesta þau til fimm ára. Það er algjörlega galin leið.

Forstjóri Kauphallarinnar, Páll Harðarson, hefur tjáð sig mikið um þessi mál og Magnús Kristinn Ásgeirsson, lögfræðingur Kauphallarinnar, skilaði inn mjög ítarlegri umsögn um þetta mál þar sem þeir komast að þeirri niðurstöðu, kauphallarmenn, að þetta sé ekki gott frumvarp og leggja til að það nái ekki fram að ganga. Þeir hafa líka komið með betri áætlun um afnám gjaldeyrishafta sem er of langt mál að fara í hér en birtist í tímaritinu Vísbendingu og ég hvet fólk til að kynna sér hana. Lykilforsendan þar er einmitt að gera þetta rösklega. Það þarf að vera tímasett áætlun, nákvæmlega eins og rætt var um á fundinum í dag, það þarf að vera trúverðugt plan og það á að ganga rösklega til verks. Um þetta frumvarp sem við ræðum hér segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„Ljóst er að áætlun um afléttingu gjaldeyrishafta leggur miklar skorður við athafnafrelsi einstaklinga og lögaðila hér á landi. Frumvarpið heftir þannig frelsi einstaklinga og lögaðila til að framkvæma aðgerðir sem almennt eru taldar eðlilegar og nauðsynlegar til að viðhalda virkum fjármálamarkaði og heilbrigðu efnahagslífi. Svo íþyngjandi lagasetning verður augljóslega að vera byggð á sterkum grunni og traustum forsendum. Enn fremur verður að gera kröfu um að sýnt hafi verið fram á að síður íþyngjandi úrræði hafi ekki verið tæk til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.“

Ég vek sérstaka athygli á lokaorðunum sem ég las hér og endurtek þau: „Enn fremur verður að gera kröfu um að sýnt hafi verið fram á að síður íþyngjandi úrræði hafi ekki verið tæk til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.“

Þetta finnst mér vera lykilatriði. Ég kalla eftir því að áætlun sem hafi síður íþyngjandi áhrif verði lögð fram af hálfu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Hér er einfaldlega verið að koma með leið sem gengur ekki upp. Þess vegna er það mjög sanngjörn krafa að við getum alla vega verið sannfærð um að aðrar leiðir gangi ekki upp. Við höfum komið með tillögur, þær eru raktar hér í nefndaráliti hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar og Péturs Blöndals og ég vísa á það þar sem tími minn er á þrotum. Þar er lögð til önnur aðferð. Í það minnsta óska ég eftir því að við tökum einn snúning á þessu í viðbót. Reynum, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins hvatti til áðan, að setjast yfir þetta verkefni saman fordómalaust og skoða hvaða leiðir eru í boði. Það þarf ekki að taka langan tíma í þetta vegna þess að á endanum snýst þetta um ákvörðun. Á endanum snýst þetta um pólitískan kjark. Erum við tilbúin til þess að láta vaða og klára verkefnið? Það getur vel verið að það taki í en ef áætlunin er trúverðug, ég tala nú ekki um ef okkur gæti auðnast að ná um það pólitískri sátt að bakka þetta plan upp, þá hef ég fulla trú á því að okkur takist það en þá þarf Samfylkingin sérstaklega að vera tilbúin til að hugsa út fyrir ESB-boxið.

Rétt í lokin, frú forseti, vil ég nefna að í gær sat ég fund með forseta króatíska þingsins ásamt fleiri þingmönnum. Króatía hefur eins og kunnugt er nýlokið viðræðum við Evrópusambandið og bíður eftir staðfestingu Evrópusambandsríkjanna um það. Við ræddum þessi mál og hvað þau teldu mikilvægast í því ferli og hvaða ráðleggingar þau gætu gefið okkur. Það snerist um að reyna að ná samstöðu um þessi mál. Hér þekkjum við hvernig farið var í þetta ferli. Það var vaðið í þetta og menn teknir hér undir vegg og hótað öllu illu ef atkvæði féllu ekki á réttan hátt. Í Króatíu tók umræðan 14 ár, 14 ára samtal, að leiða alla stjórnmálaflokkana í landinu að þeirri niðurstöðu að fyrir þá væri þetta vænlegt skref. Í gegnum allt aðildarviðræðuferlið unnu allir stjórnmálaflokkar, öll hagsmunasamtök, allir hagsmunaaðilar, akademían og fleiri sameiginlega að því sem þau vildu ná fram í þessum viðræðum, í 14 ár. Þeirra ráð til okkar var: Takið ykkur tíma.

Ég segi varðandi það mál sem hér er verið að ræða: Tökum okkur tíma, þó ekki fimm ár. Tökum okkur tíma núna. (Forseti hringir.) Hendum þessu út af borðinu, framlengjum núverandi reglur og finnum aðra lausn sem er ekki jafníþyngjandi og þetta frumvarp.