139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:35]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu og raunar þær ræður sem haldnar hafa verið hér í dag því að þetta hefur verið ákaflega málefnaleg og góð umræða. Það var tvennt sem mig langaði að beina til hv. þingmanns. Hv. þingmaður kom í máli sínu inn á að þessi blessaða evra væri í rauninni eina mál Samfylkingarinnar og að öllu væri til fórnandi fyrir hana. Jafnframt kom hv. þingmaður inn á að það væri töluvert langt þangað til við gætum tekið upp evru, a.m.k. 15 ár, þar til við uppfylltum þessi Maastricht-skilyrði. Finnst hv. þingmanni þá ekki vera svolítið ósamræmi í því að á sama tíma og verið er að tala um að afnema þurfi gjaldeyrishöftin, koma einhverjum stöðugleika undir krónuna og fara að vinna að einhverri raunsærri áætlun í því efni skuli ráðherra þessa málaflokks fara í bæði innlenda og erlenda fjölmiðla og tala um að krónan sé ónýt, það sé algjörlega vonlaust að ná nokkrum stöðugleika með henni og að við verðum að taka upp evru? Finnst ekki hv. þingmanni mikið ósamræmi í þessum málflutningi?

Það eru alls konar atriði í þessu frumvarpi, m.a. að menn þurfi að skila gjaldeyri þegar þeir koma í Leifsstöð. Er ekki veruleg hætta á því að við munum á hverju einasta þingi þurfa að fjalla um frekari girðingar til að girða fyrir öll þessi göt sem munu myndast? Og er ekki bara veruleg hætta á því að þetta endi eins og í gjaldeyrishöftunum, þ.e. að þetta verði orðin stífari og flóknari gjaldeyrishöft en hjá alþýðulýðveldinu Kína? Er það kannski stefnan? (Forseti hringir.) Hvað telur hv. þingmaður? Getur ekki jafnvel verið stefnan hjá núverandi stjórnvöldum (Forseti hringir.) að ná því fram?