139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:38]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég sagði í ræðu minni að mér þætti málflutningur Samfylkingarinnar mjög einhæfur. Ég get algjörlega lýst því sem minni skoðun og svarað þar með spurningu hv. þingmanns hvort ég telji ósamræmi og ábyrgðarleysi í að ráðherrar tali í innlendum og erlendum fjölmiðlum niður gjaldmiðilinn sem við búum við, sem og hér í ræðustóli á Alþingi. Ég get algjörlega sagt að mér finnst það ekki bara ósmekklegt, mér finnst það óábyrgt og það er ólíðandi. Þetta er ekkert nýtt. Við munum að í tíð fyrri ríkisstjórnar, ríkisstjórnar sem við áttum aðild að með Samfylkingunni, var þetta eitt af þeim atriðum sem fóru mjög í taugarnar á okkur sjálfstæðismönnum, að það var aldrei hægt að láta af þessum ósið sem ég kýs að kalla svo. Raunveruleikinn eins og ég var að sýna fram á áðan í minni ræðu er sá, og var seinast bent á í dag af framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, að hvað sem okkur finnst um þetta Evrópusambandsbix verðum við hér með krónuna næstu árin. Krónan er bara verkfæri í þessu samhengi. Við þurfum að vinna í efnahagsmálum okkar. Við sjálf þurfum að setja okkur þau markmið að standast Maastricht-skilyrðin. Það hef ég sagt og sagði löngu fyrir hrun. Við eigum að gera þetta sjálf. Við gerum það með krónunni þannig að það er fráleitt að tala svona og ætti ekki að líðast.

Varðandi girðingarnar (Forseti hringir.) og að það þurfi að gera gjaldeyrishöftin stífari mun ég ræða það í seinna svari mínu.