139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:40]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, þetta er einmitt vandinn sem við stöndum frammi fyrir. Fljótlega eftir hrunið var hér mikil umræða um gjaldmiðilsmálin. Hún var mjög opin og víðsýn. Mig langar að grípa, með leyfi forseta, niður í nokkrar fyrirsagnir sem voru þá í fjölmiðlum. Hér er til að mynda fyrirsögn á grein sem birtist á Smugunni: „Á að kasta krónunni?“ Þar er beðið um vandaða umræðu í stað gleðipillu. Svo er „Einhliða upptaka er lausn á gjaldeyrisvanda“ fyrirsögn á grein sem birtist í Morgunblaðinu 8. janúar 2009. „Tökum upp bandaríkjadal“ er grein sem birtist í Fréttablaðinu 8. apríl 2009. „Upptöku norsku krónunnar strax“ heitir grein sem birtist í Morgunblaðinu 6. september 2009. „Gæti danska krónan verið svarið?“ heitir grein sem birtist í Morgunblaðinu 21. ágúst 2008. Svona mætti lengi telja.

Fljótlega eftir hrunið var mjög góður jarðvegur undir það að taka umræðu um þessi gjaldeyrismál á víðum og frjálslyndum grunni og horfa til fleiri þátta en evrunnar. En þá er vandamálið að það var eingöngu horft til evru sem heildarlausnar á öllum okkar vandamálum. Ef það fiskaðist illa átti að fiskast betur með evrunni. Ef það rigndi ekki nóg mundi rigna meira með evrunni. Þetta er höfuðvandinn sem við erum að glíma við.

Þess vegna stöndum við frammi fyrir því í dag að við erum hér að ræða gjaldeyrishöft og að herða þau meira. Á hverju ári verðum við hér að ræða ýmis vandamál sem þessu tengjast. Það eru alltaf glufur í þessu. Ég tek undir með hv. þingmanni þegar hún kemur inn á það að það sé mjög mikilvægt að fara hér mjög víðtækt út í þessa gjaldeyrisumræðu og birta hér raunverulegar áætlanir um það hvernig við ætlum að komast út úr gjaldeyrishöftunum.