139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:42]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þær fyrirsagnir sem hv. þingmaður las hér upp lýsa einmitt þeirri staðreynd að það er ekki til nein patentlausn á þessum vanda, á því hvernig við eigum að leysa og móta peningamálastefnu okkar til framtíðar. Það verður ekki gert nema við tökum alla þá kosti sem hv. þingmaður rakti hérna. Förum markvisst yfir kosti þeirra og galla og komumst þannig að niðurstöðu.

Eins og hv. þingmaður benti á og ég gerði líka í minni ræðu hefur ekki mátt ræða málið út frá þeirri forsendu. Það hefur bara mátt ræða málið út frá einni forsendu. Ég er nú frekar vonsvikin yfir því að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur brugðið sér úr salnum og tók ekki hvatningu minni um að svara spurningunni sem ég beindi til hans. Ég vona að hann sé kominn á mælendaskrá. Ég spurði nefnilega af hverju sumarið hefði ekki verið nýtt eins og til stóð þegar við frestuðum umræðunni 7. júní. Þá átti að nota sumarið til að finna aðrar vænlegri leiðir og skoða aðra möguleika. Ég veit ekki til þess að stjórnarandstaðan hafi verið kölluð að því borði og þá er ekki verið að gera þetta rétt. Við eigum öll að eiga þetta samtal.

Auðvitað eigum við eftir að standa hér með reglulegu millibili og herða á reglunum vegna þess að þær virka ekki, það verður alltaf reynt að fara í kringum þær. Það er framtíð sem ég vil ekki, ég vil ekki búa í landi þar sem við þurfum að vera með vopnaleitartæki í flugstöðinni og peningaleitartæki, að manni verði skipað að tæma vasana þegar maður kemur úr flugvélinni. Ég vil ekki þannig framtíð, hvorki fyrir mig né börnin mín. Ég vil að við setjumst niður og finnum sameiginlega lausn á þessu til framtíðar.