139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:44]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Vakin hefur verið athygli á því að hér um bil allir ráðherrar í núverandi ríkisstjórn eigi sér pólitíska fortíð í Alþýðubandalaginu. Þegar maður hefur það í huga þarf maður kannski ekki að verða svo hissa á því að þegar hæstv. ríkisstjórn kýs að kynna stefnu sína í gjaldeyris- og peningamálum skuli það vera gert í formi fimm ára áætlunar. Það er auðvitað það sem við þekkjum úr fortíðinni í tilteknu landi þar sem menn sóttu sér einu sinni fyrirmyndir, að menn trúðu því að hægt væri að gera fimm ára áætlanir um alla mannlega breytni í viðkomandi ríki. Það væri hægt að setja allt í einhvers konar kerfi þar sem allt væri planað í fullkominni trú á að pólitísk handstýring gæti leitt menn inn á réttar brautir. Því var haldið fram að menn gætu sett alla mannlega breytni inn í þetta kerfi og þegar það væri komið væri hægt að stjórna og stýra öllu til betri vegar.

Það var hugmyndafræðin. Það var hugsunin. Svo hrundi það allt saman og menn hurfu frá þessum hugsunarhætti. En óneitanlega hvarflar það að mér við lestur þess frumvarps sem við ræðum núna að þar örli á kenningunni úr fortíðinni um að hægt sé að stjórna allri mannlegri breytni með fimm ára áætlunargerð í gjaldeyris- og peningamálum. Vitaskuld vitum við að það gengur ekki upp. Við þekkjum dæmin úr fortíðinni. Þau spor hræða. Því setur að okkur ugg þegar við veltum því fyrir okkur að nú er í raun verið að setja í lög að enn um sinn, í fimm ár, eigi að ríkja hér gjaldeyrishöft, sem menn settu á við sérstakar aðstæður en þá var hugmyndin sú að þau yrðu hér til skamms tíma.

Ég man mjög vel þessa myrku haustdaga árið 2008 þegar fjallað var um þessi mál. Ég man að ákveðið var, m.a. í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, að grípa til gjaldeyrishafta af augljósum ástæðum við þær aðstæður. Menn trúðu því, og höfðu mikið til síns máls á þeim tíma, að sú hætta væri mjög til staðar að ef ekki yrði gripið til aðgerða við þær aðstæður sem þá ríktu væri mikil hætta á ferðum og menn gætu komist í þá stöðu að gengi krónunnar mundi hrynja umfram það sem það hafði gert á þeim tíma. Þess vegna var hugmyndin sú að búa til eins konar tímabundið skjól í peningamálum, í gjaldeyrismálum, með því að setja á laggirnar gjaldeyrishöft sem yrðu síðan afnumin þegar betur áraði og betur viðraði í kringum okkur. Það var í raun sú hugsun sem bjó að baki. Það var ekki sála sem taldi á þessum tíma að gjaldeyrishöft væru eitthvað sem við mundum búa við til framtíðar. Það er alveg rétt sem sagt var áðan, við eigum okkar 60 ára sögu í gjaldeyrishöftum, en þá trúðu margir því að gjaldeyrishöft væru nauðsynleg fyrir samfélag eins og okkar til þess að lifa af. Menn trúðu því ekki að hægt væri með almennum leikreglum að tryggja jafnvægi í viðskiptum við útlönd. Menn héldu á þeim tíma að til þess að tryggja að nægur gjaldeyrir væri til í landinu til nauðsynja og til þarfa manna eins og þær voru skilgreindar á þeim tíma, og þarfir manna breytast eins allir vita, væri nauðsynlegt að gera það með því að hafa hér alls konar viðskiptahöft, þar með talið gjaldeyrishöft.

Ég man alveg tíma gjaldeyrishaftanna og fjörbrot þeirra þegar það rann smám saman upp fyrir mönnum að gjaldeyrishöftin, af hvaða tagi sem var, væru óþörf. Það var til skilaskylda á gjaldeyri á þeim tíma líka og auðvitað hafði það sínar afleiðingar. Það birtist almenningi í því að þegar fólk fór til útlanda, sem var nú miklu sjaldgæfara í þá daga, þurfti að óska eftir gjaldeyrisyfirfærslu með nokkurra daga fyrirvara eða leyfi til að kaupa gjaldeyri í seðlum, að sjálfsögðu. Á það var svo lagt 10% álag til þess að koma í veg fyrir að menn væru í einhverjum óþarfaerindum til útlanda. Þegar farið var að tala um að aflétta þessu vantaði ekki heimsendaspárnar. Þá sögðu margir okkur að það mundi hafa það í för með sér að hér mundi allt verða yfirfljótandi í gjaldeyri, fólk færi að eyða í alls konar vitleysu, jafnvel í bjór og mat í útlöndum, sem mundi hafa þær afleiðingar í för með sér að hér færi allt á hliðina. Svo var þetta afnumið og ekkert gerðist. Nákvæmlega sama var á ferðinni þegar greiðslukortin tóku að ryðja sér til rúms þar sem menn gátu farið með greiðslukort til útlanda og verslað út á þau og átt viðskipti sín á milli. Menn höfðu líka áhyggjur af afleiðingunum af þessu á þeim tíma. Auðvitað gerðist ekkert svona vegna þess að markaðslögmálin, m.a. á gjaldeyrismarkaðnum, komu í veg fyrir að eitthvað slíkt hryndi yfir okkur.

Við þessar aðstæður, eins og þær sem ég tæpti á áðan, varð til mjög óeðlilegt ástand hérna, það varð til svartamarkaðsástand. Maður þarf ekki að vera mjög gamall, kannski aðeins eldri en hv. varaformaður Framsóknarflokksins en jafnvel yngri en sá sem stendur í ræðustól, til að muna þá tíð að menn þurftu að fara á milli Heródesar og Pílatusar til þess að kreista út gjaldeyri, kreista út aura til að eiga fyrir því að ferðast í útlöndum. Þá þótti það t.d. gríðarlega mikil staða ef menn þekktu fólk í Keflavík af því að þar var nægur eða einhver aðgangur að erlendum gjaldeyri í gegnum herstöðina. Svo voru það gífurleg forréttindi ef maður kannaðist við leigubílstjóra í Reykjavík vegna þess að þeir fengu stundum greitt fyrir ferðir sínar í dollurum. Við sem komum utan af landi urðum þá að ræða við einhvern sem þekkti leigubílstjóra í Reykjavík í því sambandi ef við ætluðum að vera lengur í útlöndum en fáeina daga. Svona var ástandið og það er líka þetta sem við eigum að ræða þegar við tölum um gjaldeyrishöft vegna þess að þetta er í nýliðinni fortíð og við þekkjum það af eigin reynslu. Það er auðvitað þetta sem við sjáum og er hættan á að geti gerst við gjaldeyrishöft af þeim toga sem við erum með núna, að það skapist með einhverjum hætti svartamarkaður með gjaldeyri, vegna þess að menn reyna með ýmsum hætti að komast fram hjá þessum reglum.

Eins og ég sagði áðan er ekki hægt að setja alla mannlega breytni inn í kerfi. Auðvitað eiga menn að hlíta lögunum sem sett eru á Alþingi, hversu ósanngjörn sem þeim finnst þau vera. En veruleikinn er hins vegar sá sem við þekkjum af reynslunni, að menn reyna sífellt að koma sér fram hjá þessu með alls konar brögðum. Tökum dæmi: Ferðamönnum er núna sagt, að ég hygg, að þeir megi taka út 350.000 kr. í gjaldeyri. Þegar menn fá þá tilfinningu að hér sé um að ræða takmarkaðan aðgang að gjaldeyrinum, hvernig bregðast menn við? Jú, menn bregðast auðvitað þannig við að þeir harka út þessi 350.000, burt séð frá því hvort þeir þurfa á þessum aurum að halda eður ei. Menn líta nefnilega þannig á að með því að hafa keypt sér flugmiða til útlanda sé kominn sjálfkrafa aðgangur að þessum 350.000 kr. í útlendri mynt sem menn hafa ekki nema þeir séu búnir að kaupa sér flugmiða. Og hvernig bregst hinn venjulegi, skynsami, vitiborni maður við? Jú, hann reynir auðvitað að kaupa 350 þús. kallinn í gjaldeyrinum þótt hann þurfi ekki nema á 200 þús. kalli að halda til þess að standa straum af ferðakostnaði sínum í útlöndum. Auðvitað verður þá til vísir að einhverri verslun og viðskiptum manna í millum og vitaskuld er það það sem vakti fyrir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þegar hann lagði fram frumvarp um að þeim sem ættu meiri peninga, ættu einhvern afgang þegar þeir væru búnir að fara til útlanda, hefðu ekki eytt öllu í útlenskan ósóma, bæri að skila aurunum í bankann sinn. (Gripið fram í: Gjörið þið svo vel.)

Nú má hins vegar segja hv. meiri hluta efnahags- og skattanefndar til hróss að hann sá auðvitað afkáraleikann í þessu. Birtingarmynd þessa frumvarps var í sínum mesta afkáraleika, hugmyndin um skilaskylduna á aurunum sem fólkið hafði aflað sér sem hafði keypt sér flugmiða, fór til útlanda og kom heim. Við sjáum það líka birtast í alls konar öðrum myndum sem sýna kannski þótt í smáu sé afkáraleika þessara mála.

Ég hitti um daginn fullorðinn mann sem á afastelpu sem var að læra í útlöndum. Eins og gerist og gengur með námsmenn eru þeir ekki allt of loðnir um lófana og afi gamli hafði hugsað sér að gleðja barnabarnið með því að aðstoða það við kaup á lítilli bíldruslu í útlöndum til þess að skottast á milli skólans og húsnæðisins sem viðkomandi bjó í. Afinn átti mjög erfitt með að skilja það og færði það í tal við mig að sér hefði nú verið hafnað um að fá gjaldeyrisyfirfærslu til þess eins að styðja barnabarnið sitt til náms í útlöndum. Nú getum við auðvitað sagt eins og sagt var hérna um árið, að þetta sé nú óþarfi.

Einu sinni vorum við með haftakerfi og þá kom umsókn frá einhverjum sem vildi flytja inn barnavagn. Hafta- og skömmtunarnefnd ríkisins á þeim tíma fór rækilega yfir málið og frægt er að því var hafnað. Formaður nefndarinnar afgreiddi umsóknina með þeim orðum að sjálfur hefði hann alist upp við að vera lagður út í hlaðvarpann. Menn gætu nú alveg búið við það í nútímanum eins og hann sem hefði komist sæmilega á legg forðum við þessar aðstæður. Þannig verður þetta auðvitað við skömmtunaraðstæður eins og þessar. Þá þurfa menn að vega og meta hvað er raunhæft: Hvað þurfa menn? Hvað geta menn komist af með? o.s.frv. Ákvörðunin verður ekki lengur hjá einstaklingunum sem vilja taka ákvörðun fyrir sína hönd og vandamanna sinna, ákvörðunin verður lögð á herðar samviskusömum embættismönnum í Seðlabankanum sem þurfa þá á grundvelli laganna — því að þetta er ekki illska uppfundin í kollinum á þeim — sem við ætlum hugsanlega að setja á Alþingi að kveða á um hvernig fara skuli með slíkar beiðnir. Með öðrum orðum: Þetta er sá vandi sem við erum stödd í.

Nú í haust munum við halda upp á að þrjú ár verða liðin frá því að við settum lögin um gjaldeyrishöftin. Ég nefndi áðan að ég myndi vel þessa myrku haustdaga og ég man vel hvað menn voru að hugsa á þeim tíma. Það goppaðist ekki upp úr einum manni að þetta væri hugsað til margra ára, ekki til þriggja ára. Og nú stöndum við frammi fyrir því að hér er lagt á borð okkar þingmanna frumvarp sem felur í raun það í sér að við erum að lögfesta gjaldeyrishaftaástand sem þá á að hafa varað í sjö ár — í sjö ár. Datt einhverjum það í hug haustið 2008 að við værum með lagasetningunni það haust að búa okkur undir gjaldeyrishöft í sjö ár? Ég fullyrði að hafi einhverjum dottið það í hug var því ekki ljóstrað upp, a.m.k. ekki úr ræðustóli Alþingis. Það voru hins vegar ýmsir sem vöruðu okkur við og sögðu: Hættan við svona haftabúskap er sú að hann grefur um sig. Menn ætla sér auðvitað ekki við þessar aðstæður núna að festa þessi höft í sessi en vandinn sem menn standa stöðugt frammi fyrir er í því fólginn að um leið og höftin eru komin á, alveg eins og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sagði í ræðu á sl. vori, verða menn ef þeir ætla að framfylgja höftunum, að hafa þau altæk og gæta þess að fatan leki hvergi. Og það er í raun og veru það sem verið er að segja með þessum lögum: Það er allt bannað nema með tilteknum undantekningum sem gera aftur á móti þetta mál og þessa framkvæmd alla eins ógagnsæja og hægt er að hugsa sér. Í hvaða stöðu er t.d. embættismaður settur sem fær stöðugar umsóknir um undanþágur frá lögum? Lögin eru skýr og síðan er undanþágubeiðnin oft af þeim toga að hún hlýtur að vera matsatriði hverju sinni.

Við sjáum líka hvernig þetta hefur birst í ótrúlegustu myndum. Ég nefndi söguna af afa gamla áðan en ég gæti líka sagt söguna af stóru öflugu sjávarútvegsfyrirtæki, Samherja, sem veltir milljarðatugum úti í heimi. Þar átti að senda nokkra menn á sjávarútvegssýningu í Brussel og ég held að það hafi verið mánaðarprósess sem lauk ekki fyrr en sjálfur aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands kvað upp úrskurð sinn um að þetta stóra sjávarútvegsfyrirtæki mætti náðarsamlegast fá einhverja aura í gjaldeyrisformi til þess að flytja út og standa undir kostnaði við utanlandsferðina. Vitaskuld hefði það ekki verið nokkurt vandamál fyrir daga gjaldeyriskerfisins en þarna sjáum við hvernig samfélagið verður stöðugt þyngra, eftirlitskerfið meira og skapandi störf, eins og eru stundum í þessum útflutningsgreinum þar sem menn eiga fyrst og fremst að vera að hugsa um að búa til einhver verðmæti og gjaldeyri og ný tækifæri, hverfa vegna þess að menn verða svo uppteknir af því að glíma við afleiðingar gjaldeyrishafta og slíkra hluta sem við ræðum hér.

Ég nefndi það áðan að þegar menn voru að véla um gjaldeyrishöftin á sínum tíma árið 2008 var sú hugsun efst í huga flestra, a.m.k. þeirra sem ábyrgð báru á lagasetningunni á þeim tíma, að þetta væri mjög tímabundið og yrði að hverfa sem allra fyrst. Svo snemma sem 3. apríl árið 2009 tók ég þessi mál upp á Alþingi í umræðu utan dagskrár þar sem fjallað var um áhrif gjaldeyrishafta á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Strax nokkrum mánuðum eftir að gjaldeyrishöftin voru sett á var mönnum orðið það ljóst að þau höfðu mjög skemmandi áhrif á atvinnulega uppbyggingu íslenskra fyrirtækja, þau skemmdu samkeppnisstöðu þeirra og skekktu á alla vegu, rétt eins og vel er lýst í nefndaráliti 3. minni hluta efnahags- og skattanefndar þingsins sem þeir hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson og Pétur H. Blöndal skrifuðu. Þeir röktu þar mjög vel hvernig höftin skekkja samkeppnisstöðuna og leiða í raun til rangra fjárfestingarákvarðana vegna þess að gjaldeyrishöftin bjaga allt umhverfið. Ég tók þessi mál sem sagt upp 3. apríl 2009 og beindi orðum mínum í utandagskrárumræðunni til hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra, Gylfa Magnússonar. Ég brýndi hæstv. ráðherra í þessu máli og í umræðunni kom fram m.a. hjá ýmsum þingmönnum að ríkisstjórnin ynni ekki nægilega ötullega að málinu. Því svaraði hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra svona, með leyfi forseta:

„Þvert á móti er vinna í gangi, bæði á vegum ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans og að sjálfsögðu í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur hins vegar mér vitanlega ekki sjálfur komið með neinar tillögur. Raunar verð ég að viðurkenna að mér fannst fulltrúi hans vera helst til rólegur með þessi höft þegar hann fór hér um landið fyrir nokkrum vikum og hafði ekki, að mínu mati, réttmætar áhyggjur af því hversu lengi þessi höft gætu verið.“

Síðar í ræðunni sagði hæstv. viðskiptaráðherra:

„Ég held að það sé samdóma álit allra sem hér hafa talað að menn vilja ekki sjá þessi höft til langframa. Það hlýtur því að vera sameiginlegt markmið okkar að breyta þannig stöðu efnahagsmála á Íslandi að við þurfum ekki lengur á höftum að halda.“

Hér er komið að kjarna málsins, þar sem hæstv. viðskiptaráðherra er að segja okkur að við getum ekki afnumið viðskiptahöftin í einhverju tómarúmi. Við þurfum að búa til efnahagslegar forsendur. Við þurfum að kveikja líf í efnahagskerfi okkar. Við þurfum að skapa einhverja tiltrú á því efnahagslífi sem hér er. Við þurfum að skapa þá tiltrú á hagkerfi okkar að það geti tekist á við þær breytingar sem óneitanlega fylgja því þegar gjaldeyrishöftum er aflétt. Í raun og veru má segja að með því frumvarpi sem liggur fyrir sé verið að flytja eins konar vantrauststillögu á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Sú staðreynd að hér er verið að festa það í lög að á Íslandi hafi verið og verði gjaldeyrishöft í sjö ár í einu eða öðru formi er yfirlýsing um að það er ekki traust, hvorki af hálfu Seðlabankans né heldur ríkisstjórnarinnar á að hér séu þær efnahagslegu forsendur til staðar sem gefa okkur möguleika á því að afnema gjaldeyrishöftin, og það er auðvitað ýmislegt til í því. Það er ýmislegt til í því að staða efnahagsmálanna er þannig að það ríkir ekki mikið traust á efnahagsmálin og stöðu ríkisins í þessu samhengi. Það breytir því hins vegar ekki að við höfum allar forsendur til að skapa þær aðstæður. Íslenskt þjóðfélag og hagkerfi okkar eru þannig samsett að við höfum allar forsendur til þess, m.a. vegna öflugs útflutnings. En auðvitað er hægt að vinna þannig að málum eins og hæstv. ríkisstjórn hefur gert að það skapist ekki þetta traust. (Forseti hringir.) Þess vegna er fyrsta forsendan sú að koma þessari ríkisstjórn frá til þess að við getum unnið að því að afnema (Forseti hringir.) þessi gjaldeyrishöft.