139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:07]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri freisting að vitna í hina helgu bók um það sem menn gjöra en ætla sér ekki að gjöra. Núna hygg ég að langflestum sé það ljóst að gjaldeyrishöft skemma, sem er auðvitað öðruvísi en var með gömlu gjaldeyrishöftin. Fyrir áratugum var það ekki skoðun manna. Það er alveg rétt, svo ég vitni aftur í hæstv. fyrrverandi viðskiptaráðherra Gylfa Magnússon, að höft voru áður og fyrr nánast algengasta efnahagsráðstöfun Íslands áratugum saman. Undantekningarlaust eða undantekningarlítið skiluðu þau ekki tilætluðum árangri og höfðu í för með sér ýmsa fylgikvilla sem voru jafnvel verri viðureignar en sóttin sem höftunum var ætlað að lækna.

Menn trúðu þessu hins vegar á þessum tíma. Menn trúðu því að það þyrfti að hafa menn til að ákveða hvort flytja mætti inn barnavagna og nota til þess gjaldeyri. Nú hygg ég að fæstir trúi þessu. Nú hafa að vísu einstaka öfgamenn skotið upp kollinum og notað hrunið til að formæla öllum hugsunum um frelsi í viðskiptum og markaðslausnir o.s.frv. Þeir menn eru til og eru býsna nálægt stjórnvelinum í ríkisstjórn Íslands um þessar mundir. En það breytir ekki því að meginlínan í allri hugsun okkar er sú að við þurfum að hverfa frá gjaldeyrishöftunum og það er yfirlýstur tilgangur frumvarpsins, sjáum til. Það er þannig.

Vandinn er hins vegar sá að gjaldeyrishöft, eins og önnur höft og eins og aðrir fylgikvillar, hafa tilhneigingu til að grafa um sig nema eitthvað sé gert. Það er auðvitað rétt sem hæstv. fyrrverandi viðskiptaráðherra vekur athygli á, svo ég vitni enn og aftur í hann, að til þess að það sé hægt þá þarf að breyta stöðu efnahagsmála á Íslandi. Ég hygg að þar séum við komin að kjarna málsins. Í frumvarpinu felst þess vegna í rauninni (Forseti hringir.) vantraust á stöðu efnahagsmála á Íslandi.