139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður deilum skoðunum um að losna þurfi við þessi gjaldeyrishöft. Auðvitað áttar maður sig alveg á hugmyndafræðinni á bak við það að gera þetta svona rólega. Menn eru að reyna að koma í veg fyrir að hér verði einhverjar kollsteypur, við fáum yfir okkur verðbólguskot o.s.frv. En þá eigum við auðvitað að bregðast við með öðrum hætti. Þá eigum við að bregðast við þannig að búa til aðstæður í efnahagslífinu sem gera það að verkum að það verði ólíklegt.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vakti athygli á því að ótti manna við erlendu skuldabréfaeignina sé kannski að einhverju leyti ástæðulaus vegna þess að útboðin hafa gefið til kynna að menn vilja ekki láta svíða sig út úr þeirri stöðu sem þeir eru í. Allt þetta verða menn auðvitað að hafa í huga.

Ég held að stóra málið í þessu sé einfaldlega þetta: Í fyrsta lagi þarf að búa til þessar efnahagslegu aðstæður og í öðru lagi verður að vera mikill trúverðugleiki yfir þessu. Nú hefur Seðlabankinn auðvitað sett fram ákveðna útgönguleið og varðað hana með ýmsum hætti þannig að við eigum að sjá hvernig menn ætla sér að feta sig út úr þessu. Engu að síður finnst mér það vera nokkuð óljóst hver staða okkar verður eftir, við skulum segja eitt ár eða tvö ár, ég tala nú ekki um þrjú ár. Í hvaða stöðu verðum við, jafnvel þótt við fylgjum þeim áætlunum sem Seðlabanki Íslands hefur sett fram?

Þegar við sjáum þessa miklu hættu sem fylgir alltaf höftunum, þau grafa sig alltaf dýpra, þá óttast maður líka að þegar planið er sett fram til svo langs tíma muni eitthvað gerast á vegferðinni sem verður þess valdandi að planið gengur úr skorðum og menn ná ekki markmiðum sínum og höftin standi þá ekki til ársloka (Forseti hringir.) 2015 heldur eitthvað miklu lengur.