139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:14]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Það er á vissan hátt dálítið vandasamt að hefja umræður um mál á þessu septemberþingi, sem farið var af stað með áður en við lukum störfum í sumar. Þetta mikilvæga mál var í raun og veru í miðri 2. umr. þegar gert var hlé á þinginu í sumar. Við tökum upp þráðinn að nýju í september og það er ekki laust við að manni finnist samfellan í málinu heldur hafa trosnað.

Þegar við skildum við þetta mál í sumar skildist mér að til stæði að nýta tímann og kanna hvort hægt væri að koma með tillögu að annarri leið en þeirri sem frumvarpið um haftamál felur í sér. Það virðist ekki hafa tekist því að nú er frumvarpið komið aftur á dagskrá. Reyndar hefur það breyst nokkuð frá því þegar það var lagt fram upphaflega. Það var með alls konar undarlegum greinum og einkennilegum áherslum og nánast furðulegum á margan hátt, t.d. um hvernig almenningur í þessu landi, venjulegt fólk sem vildi fara til útlanda, ætti að haga sér með gjaldeyri sinn og yfirfærslur. Eitthvað hefur frumvarpið verið lagað en það sýnir samt sem áður að þegar höft eru komin á er mikil tilhneiging til að herða þau.

Ég var ein af þeim sem átti þátt í því að höftin voru lögð á haustið 2008 og ég verð að segja alveg eins og er að ég held að það hafi verið það erfiðasta sem við tókumst á við af eftirköstum hrunsins að taka ákvörðun um það. Eina vonin sem ég bar í brjósti þá nótt þegar haftafrumvarpið varð að lögum var að það yrði tímabundið ástand, að höftunum yrði aflétt árið 2010. Tilgangurinn með því að fá heimild Alþingis til að leggja á gjaldeyrishöft var einnig sú að vernda gjaldmiðilinn vegna hrunsins, það var nauðsynlegt en það var alls ekki víst að við þyrftum að beita þessum reglum. Á þeim grunni tók Alþingi, og þar með Sjálfstæðisflokkurinn sem þá var í ríkisstjórn, þá ákvörðun að leggja höftin á þótt menn þekktu gjaldeyrishöftin af sögunni og eigin reynslu frá 20. öldinni, að þá reyndist erfitt að aflétta þeim. Og af því að menn voru minnugir þess trúðu þeir því að það væri tímabundið ástand en kannski er það akkúrat misskilningurinn.

Ég hjó eftir því í máli Einars K. Guðfinnssonar að hann lýsti því hvernig var hér á árum áður þegar gjaldeyrishöftin voru á krónunni alveg frá stríðslokum og langt fram eftir öldinni, hvernig menn höfðu vanist því að umgangast þau. Síðan kom tímabil þegar við höfðum losað okkur við höftin og fólk var fljótt að venjast frjálsræðinu sem því fylgdi. Nú erum við aftur komin í haftabúskapinn og sjáum fram á að enn á að herða að. Ég hygg að það séu mestu vonbrigðin fyrir okkur af þeim aðgerðum sem farið var í haustið 2008 að við erum enn þá með höftin.

Það er nauðsynlegt að við ræðum þetta mál. Búið er að fara mjög ítarlega í efni málsins í þeirri góðu umræðu sem verið hefur í dag og eins í vor þegar málið var til umfjöllunar. Fyrir liggja mjög ítarleg nefndarálit frá meiri hluta og þrjú minnihlutaálit þannig að það þarf ekki að endurtaka margt af því sem hér hefur verið sagt að öðru leyti en því að ég held að það sé hyggilegt fyrir okkur þegar við afgreiðum mál af þessum toga — og mér finnst eiginlega ekki koma til greina að málið sé afgreitt í núverandi mynd. Ég vil taka það fram að við sjálfstæðismenn erum reiðubúin til að leggja af mörkum krafta okkar við að leysa úr þessum vandræðum þannig að við getum létt höftunum. Fulltrúar okkar í efnahags- og skattanefnd hafa þegar lagt það til og nefndarálit okkar ber þess vitni að menn vilja reyna aðrar leiðir en þær að framlengja höftin allt til 1. janúar 2016. Við getum sagt að með því að framlengja höftin til 1. janúar 2016 sé ákveðið að þau verði í gildi í nánustu framtíð og við sjáum ekki fram á að þeim verði aflétt. Það felst auðvitað í ákvörðuninni. Mér finnst ríkisstjórnin þurfa að útskýra fyrir okkur hvernig hún sér fyrir sér að höftunum verði aflétt. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra nefnir oft að það sé varúðarráðstöfun að hafa tímabilið svona langt en við sjáum hver reynslan er. Við sjáum að það er alltaf tilhneiging til að nýta allan tímann og það þarf stöðugt að herða reglurnar.

Við erum að innleiða í lög reglur Seðlabankans af því að menn hafa ekki trú á því að höftunum verði aflétt í nánustu framtíð. Það er málið. Ég held að við þurfum að tala um hvernig við ætlum að komast út úr þessu og mér finnst það vera verkefni þess eðlis að það eigi að vera hægt að vinna það í samstarfi stjórnar og stjórnarandstöðu. Menn hljóta að sjá það að svona getur þetta ekki verið um langa framtíð.

Hvernig sjáum við fyrir okkur að við rekum peningastefnu í landinu? Hvernig sjáum við fyrir okkur að við stýrum krónunni næstu árin? Hvaða veikleikar eru í krónunni sem við þurfum að byggja undir og hvernig ætlum við að gera það?

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur lýst skoðun sinni á því hvernig haga skuli peningapólitík á Íslandi. Það felst auðvitað í því að ganga í Evrópusambandið og að taka upp evru, það er skoðun hans. En hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra veit það að jafnvel þó að honum yrði að ósk sinni um að ganga í Evrópusambandið getur hann ekki tekið upp evru á þeim tímapunkti. Hann verður að bíða eftir því nokkuð mörg ár, að ég hygg, (Gripið fram í.) að evran bjóðist og við eigum eftir að sjá hvernig evran kemst gegnum það gjörningaveður sem hún er í nú. Það er mikilvægt fyrir okkur að við förum að ræða það í alvöru á Alþingi hver framtíð evrusamstarfsins er, hvaða leikfléttur eru og hvað evruríkin telja að þau þurfi að gera til að undirbyggja evruna. Mér finnst að við þurfum að tala um það.

Ég hef haft þá skoðun að það skipti verulegu máli þegar við lítum til íslensku krónunnar, peningastefnunnar, að við samþættum betur ríkisbúskapinn og stjórn peningamála. Ég er ekki sannfærð um að það sé augljóst að það sé gott að Seðlabanki Íslands sé svo sjálfstæður að hann sé nánast hliðsettur við ríkið, eins og mér hefur stundum fundist menn gefa til kynna í umræðunni. Það er erfitt fyrir Seðlabankann að hafa þau tæki sem hann hefur til að bregðast við verðbólgu og öðrum þáttum þegar ríkissjóður eykur útgjöld sín stöðugt hinum megin. Það er vandamál sem við höfum átt við að etja í langan tíma. Hvernig var það þegar góðærið var hér sem mest? Hættan var sú að ríkið jók útgjöldin stöðugt. Seðlabankinn kallaði eftir aðhaldi í peningamálum. Íbúðalánasjóður var að gera eitthvað allt annað. Það harmónerar ekkert saman þannig að ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að reyna að koma okkur upp þeim aga sem þarf við stjórn peningamála og ríkisbúskapar og það er kannski það sem mest hefur skort á undanfarið. Ég vil segja að ef við eigum að læra eitthvað af þeim atburðum sem urðu er það að innleiða betri aga. Svo er það að sjálfsögðu athyglisvert að í Seðlabankanum hefur ekki orðið nein breyting á stýringu krónunnar. Höfundur peningastefnunnar er studdur af Seðlabankanum. Hefur það eitthvað breyst? Hvað hefur orðið um alla gagnrýnina á Seðlabankann sem var fyrir örfáum missirum síðan um að breyta þyrfti peningastefnunni? Hver er peningastefna Seðlabanka Íslands núna? Þurfum við ekki að ræða það líka í þessum sölum? Þurfum við ekki að tala um hvert við ætlum að stefna? Ég hygg að það séu allir flokkar tilbúnir til slíkra umræðna ef menn vilja taka það verkefni alvarlega og leggja eitthvað fram.

Mér finnst líka dálítið einkennandi fyrir þá ríkisstjórn sem er við völd að hún er farin að stunda mikinn áætlunarbúskap. Hér eru boðaðar alls kyns áætlanir um hina og þessa hluti og það þarf að skrifa um það skýrslur. Í þessu tiltekna máli vantar planið. Hvert er planið til að losa okkur út úr höftunum? Hvernig ætlum við að gera það? Hvað þarf að vera í lagi til að hægt sé að létta höftunum? Þurfum við ekki að vera komin með kröftugt atvinnulíf? Þurfum við ekki að vera búin að koma fjárfestingum í gang? Þurfum við ekki að hafa stöðugan rekstur á ríkinu? Þurfa þessir hlutir ekki að vera í lagi? Hvað er ríkisstjórnin að gera til að bregðast við því? Því verða menn að svara.

Ég held líka að það sé alveg augljóst að það þarf að tala um hvort það sé kannski allt í lagi að lyfta höftunum hratt. Hvaða afleiðingar mundi það hafa? Það er nokkuð sem hagfræðingar hafa rætt um á Íslandi? Það eru sjónarmið uppi um að það sé best að taka plásturinn af hratt eins og maður gerir við krakkana sína, ekki fjarlægja hann hægt og rólega heldur rífa hann af. Við vitum að krónan mundi falla, við þurfum að gera okkur grein fyrir því hversu lengi það ástand gæti varað og hvað þarf að vera í lagi til að tryggja að það yrði sem styst. Ég held að í því efni sé það akkúrat málið að menn séu komnir með trúverðuga stefnu í peningamálum, trúverðuga stefnu í ríkisfjármálum, kraftmiklar fjárfestingar í landinu, stöðugt skattumhverfi, trúverðugleika fyrir efnahagsstefnu sem rekin er á Íslandi þannig að fjárfestar, erlendir sem innlendir — við skulum ekki gleyma því að það skiptir líka miklu máli að lítil og meðalstór fyrirtæki hafi tök á því að fjárfesta, að menn hafi trú á því að hér sé verið að gera hlutina með réttum hætti.

Nú sendum við þau skilaboð, ekki síst ráðherrar í ríkisstjórninni, að við séum með ónýtan gjaldmiðil, að það sé ekkert hægt að notast við hann. Samt vita menn að það þarf að notast við þennan gjaldmiðil í fyrirsjáanlegri framtíð. Það er ekki hægt að afgreiða þetta mál með því að segja: Íslenska krónan er ónýtur gjaldmiðill, við viljum ganga í Evrópusambandið og taka upp evru, þegar við vitum að það er óljóst hvort við erum yfirleitt á leið í Evrópusambandið. Þjóðin er ekki fylgjandi því. Flokkarnir á Alþingi, allir nema einn, eru á þeirri skoðun að við eigum ekki að fara í Evrópusambandið. Það eru þegar mikil vandræði komin í aðildarferlið. Við sáum það síðast í gær og í dag varðandi opnunarskilyrðin í landbúnaðarkaflanum. Þetta mál er komið í verulegar ógöngur. Það væri réttast fyrir okkur að leggja það til hliðar og fara að reisa við trúverðugleika þjóðarinnar, að hætta þessu. Það verða allir varir við ágreininginn sem þar er á ferðinni. Það sjá allir að það er ekki hægt að fara í þess konar vinnu nema þjóðin sé með, að það sé vilji til að gera þessa hluti. Það er ekki fyrir hendi hér. Það er bara einn flokkur sem er með þetta á stefnuskrá sinni og er búinn að stofna til heillar ríkisstjórnar og taka heilan stjórnmálaflokk með sér. Reyndar hefur heldur tínst úr liði þess stjórnmálaflokks frá því að ríkisstjórnin var stofnuð. Og af hverju skyldi það vera? Ábyggilega ekki síst vegna þess að menn vilja ekki víkja svo mikið frá grundvallarstefnu flokksins.

Aðalatriðið er að við sjáum ekki stefnu Samfylkingarinnar, sem samfylkingarmenn vilja meina að sé efnahagspólitísk stefna þeirra til langs tíma, verða að veruleika. Hún verður ekki að veruleika á þann hátt sem þeir halda og það er ekki hægt að halda því fram að evran geti þá verið einhver valkostur við krónuna í þeirri stöðu sem við erum í. Eru menn tilbúnir til að taka upp annan gjaldmiðil einhliða? Sjá menn það sem raunverulegan möguleika? Er það gott fyrir eins sveiflukennt hagkerfi og við höfum? Vilja menn taka upp tengingar við aðra mynt? Við myntbandalagið? Vilja menn gera það? Það eru allt hlutir sem þarf að fara í gegnum, og fyrst og fremst hvernig við sjáum fram á að geta beitt íslensku krónunni til hagsbóta fyrir það hagkerfi sem við rekum hér. Við megum heldur ekki gleyma því að þegar hrunið varð — við skulum minnast þess að við höfum allar forsendur til að snúa skákinni okkur í hag. Við erum með trausta innviði, við höfum auðlindirnar okkar, við höfum yfirráð yfir þeim. En var það ekki einmitt á forsendum íslensku krónunnar sem allir þessir innviðir urðu til, allt það sem við höfum byggt upp á undanförnum áratugum? Höfum við ekki oft og tíðum þakkað fyrir að hafa stjórnað okkar eigin gjaldmiðli?

Hvað er það sem skiptir máli fyrir okkur nú þegar útflutningur gengur vel? Er það ekki líka gjaldmiðillinn okkar? En það er hins vegar alveg vitað að við þurfum að tempra sveiflurnar sem verið hafa. Það er verulegt áhyggjuefni núna, við munum að Seðlabankinn greip til þess ráðs í sumar að hækka vexti. Reyndar var þetta lítil vaxtahækkun og ég hallast að því að hafa haldið það fyrir fram — ég er ekki hagfræðingur — en maður horfir á þetta og reynir að skilja að svo lítil vaxtahækkun sem þarna var boðið hefði ekki dugað til að ráðast á verðbólguna. En hún mæltist hins vegar mjög illa fyrir vegna þess að menn sjá að það er ekki gert sem gera þarf sem er að stækka kökuna og efla fjárfestingar.

Við vitum líka að þeir kjarasamningar sem gerðir voru í vor voru afskaplega verðbólguhvetjandi. Þrír aðilar komu að þeim kjarasamningum; aðilar vinnumarkaðarins, vinnuveitendur og launþegar, og ríkið. Til að planið gangi upp í kjarasamningunum þurfa allir þessir þrír að standa við sitt. Verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur hafa gagnrýnt ríkisstjórnina mjög fyrir að hafa ekki staðið við það sem þeir lofuðu í þessum kjarasamningum. Það er reyndar ekki í fyrsta skipti sem það gerist að ríkisstjórnin sé gagnrýnd af hálfu aðila vinnumarkaðarins á þessu kjörtímabili. Við minnumst stöðugleikasáttmálans. Við erum enn þá að tala um sömu störfin núna og við töluðum um í stöðugleikasáttmálanum og í rauninni erum við látlaust að tala um það sama. Við höfum látlaust talað um sömu hlutina frá haustinu 2008, um sömu verkefnin sem þurfa að fara af stað. Við erum látlaust að tala um að það sé ekki hægt að leggja meiri skatta á fólk. Við erum nánast eins og við séum alltaf stödd á sama stað og komumst ekki nógu örugglega áfram. Til að brjótast út úr þeirri kyrrstöðu held ég að við verðum að ganga miklu lengra í því að líta til þeirra tækifæra sem við höfum og reyna að láta þau verða að veruleika. Ég held að það sé afskaplega brýnt. Ég hef hins vegar ekki mikla trú á að það gerist með þá ríkisstjórn sem hér situr, því miður.

Við sjálfstæðismenn höfum sagt það margoft að við séum reiðubúin til að taka þátt í því verkefni að ná tökum á efnahagsástandinu, á peningastefnunni, á íslensku krónunni. Við höfum lagt fram tillögur í því efni allt frá kosningum. Við lýstum þeim áhyggjum líka þegar við vorum í ríkisstjórn haustið 2008, þegar gjaldeyrishöft voru lögð á, að það yrði að vera tímabundið ástand, menn yrðu að brjótast út úr því, en það hefur ekkert breyst. Mér þykir afar miður að sumarið hafi ekki nýst til að koma með meira inn í umræðuna en raun ber vitni. Við erum að tala um nákvæmlega sama málið og við skildum við í júní. Það hefur ekki breyst. Efnahags- og skattanefnd hefur reyndar, eins og ég nefndi áðan, tekið þætti út úr frumvarpinu sem mér finnst fjarstæðukennt að hafi verið þar yfirleitt, en við sjáum ekki hvernig menn ætla að leysa sig út úr þessum vanda.

Seðlabanki Íslands hefur boðað að þar séu menn að athuga framtíð peningastefnu á Íslandi. Ég hygg að það sé hugsað með krónuna í huga eða einhverjum öðrum hætti. Það er mjög brýnt að sú vinna klárist og að við getum farið að ræða þetta í sölum þingsins. Við megum ekki tapa hverju missirinu á fætur öðru í þessu máli. Það eru liðin þrjú ár síðan bankarnir hrundu, heil þrjú ár. Við erum enn þá að berjast við eftirköstin gagnvart heimilunum í landinu. Allur sá óstöðugleiki bitnar beint á þeim, beint á buddu landsmanna. Við erum enn þá að tala um sömu verkefnin, sömu störfin, í hvaða geira sem er. Við erum komin í mikil átök út af grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútvegi, á tíma sem ég hefði haldið að ætti alls ekki að gera það. Ég hefði haldið að maður ætti að geyma slíkar deilur þangað til rykið hefur sest í landinu. En menn kjósa að gera það ekki og þegar svo er haldið á málum heldur sjávarútvegurinn að sér höndum í fjárfestingum. Það á ekki bara við um stærstu fyrirtækin af því að þau koma í raun einna best út úr breytingunum á sjávarútvegi. Það eru litlu fyrirtækin og meðalstóru fyrirtækin út um allt land sem þurfa hjálp. Það eru þau sem þurfa að bæta við sig einum starfsmanni eða tveimur, að auka aðeins veltuna. Það skilar sér allt og er til hagsbóta fyrir Íslendinga, það er það verkefni sem við þurfum að fara að takast á við núna.