139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:37]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að þetta sé rétt sem hv. þingmaður bendir á. Við höfum því miður búið við það á undanförnum missirum að ef hægt er að flækja mál eru þau flækt. Ef hægt er að koma hlutunum einhvern veginn í skakkan farveg er það gert. Ef hægt er að gera ágreining um hluti fara hlutir í ágreining. Við sjáum það bæði milli flokkanna og innan flokkanna að menn eru ósammála í grundvallarmálum og það er ekki það sem við þurfum á að halda þegar við stöndum í þeim stórræðum sem við erum í. Þessir ríkisstjórnarflokkar eru ekki sammála um orkuöflun, við vitum það. Þeir eru ekki sammála þegar kemur að Evrópusambandsaðild. Þeir líta það ólíkum augum til hvers þurfi að grípa til að koma okkur út úr þessari klemmu og ég hygg að í skattamálum sé einnig nokkurt bil á milli ríkisstjórnarflokkanna. Það sáum við til dæmis á flokksráðsfundi Vinstri grænna á dögunum þar sem fundurinn var á þeirri skoðun að ganga þyrfti harðar fram í skattahækkunum á kostnað þess að skera niður í ríkisrekstri. Samt voru stjórnarflokkarnir búnir að leggja fram ramma fjárlaga um hvernig ætti að gera þetta. En hæstv. forsætisráðherra tekur auðvitað ekkert mark á ályktunum þessa samstarfsflokks síns og segir að það komi ekki til mála að fylgja þeim, heldur verði bara fylgt stefnu Samfylkingarinnar. Þetta viðhorf gerir ekkert annað en að draga þróttinn úr öllu atvinnulífinu, fólkinu sem býr hér, fjölskyldunum sem sjá stöðugt minna af krónum í buddunni sinni. Það eru afleiðingarnar af þeim ágreiningi og sundurlyndi sem ríkir í stjórn þessa lands. Það eru engar líkur til að nein breyting verði á því á næstu vikum og mánuðum nema síður sé.