139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður benti á þegar hún vitnaði í breytingar á skattkerfi sem núverandi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir. Ég held að það hafi komið fram að yfir 100 breytingar hafi verið gerðar á skattkerfi og þar af leiðandi skattumhverfi íslensks atvinnulífs. Hvað hefur það leitt af sér? Hverjar eru fréttirnar? Fjárfesting í íslensku atvinnulífi er í sögulegu lágmarki og það leiðir af sér að fjölgun starfa verður minni. Það er kannski þess vegna sem við búum í dag við það að 16 þús. Íslendingar eru án atvinnu og 25 þús. störf hafa tapast frá hruni þannig að stefnan sem stjórnin hefur viðhaft í málefnum skuldugra heimila og fyrirtækja og í atvinnusköpun fyrir þjóðina hefur leitt til þess að við erum verr í stakk búin til að létta af þessum gjaldeyrishöftum með skjótvirkari hætti en ella hefði orðið. Það er mikilvægt að koma þessari ríkisstjórn frá og breyta um stjórnarstefnu vegna þess að með þessu áframhaldi verður íslenskt samfélag fært aftur um áratugi.