139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:43]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal er sérfræðingur í líkindareikningi. Ég tel mig ekki þess umkomna að taka djúpa umræðu um líkindareikning við hann.

Það sem ég átti við og sagði er að hagfræðingar hafa spáð því að krónan gæti fallið og þeir sem eru mjög svartsýnir hafa haldið því fram að fall krónunnar yrði verulegt. Síðan hafa menn deilt um það hversu hratt hún kæmist upp aftur o.s.frv.

Aðalatriðið í þessu er það sem þingmaðurinn nefndi og ég hygg að ég hafi líka nefnt í ræðu minni, það snýst um það hvaða trúverðugleiki verður kominn á stjórn efnahagsmála þegar þetta gerist. Það mun hafa mest áhrif á það hvernig krónunni reiðir af við þetta. Það er ekki hægt að gera svona hluti þegar menn hafa ekkert sannfærandi efnahagsplan, vita ekki hvert þeir stefna. Ekki hefur nokkur maður trú á krónunni og allra síst ráðherrann sem sér um efnahagsmál og fer fyrir ríkisstjórninni. Það finnst mér meginatriðið og ég hygg að þarna séum við hv. þingmaður sammála. Það sem við þurfum að gera er að skapa traust efnahagsskilyrði til að við getum komið fjárfestingum í gang og fengið fólk til að hafa tiltrú á því plani sem við erum með. Þá getum við tekið ákvörðun um að losa okkur við þessi höft og við verðum að gera það. Ef þetta festist of lengi í sessi mun þetta hafa mjög svo afgerandi áhrif á efnahagslífið.