139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:47]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað grátlegt að tíminn skuli hafa hlaupið svona frá okkur eins og hann hefur gert og það er alveg ótrúlegt að liðin séu þrjú ár núna í október frá því að þessir atburðir urðu og við erum hér hjakkandi í sama farinu.

Ég held að ég geti alla vega sagt það fyrir minn hatt að ég hefði ekki samþykkt þessi gjaldeyrishöft hefði ég vitað að ekki stæði til að aflétta þeim aftur. Þegar þau voru lögð á höfðu menn ákveðnar áætlanir um hvað þyrfti að gera. Það átti að fara í fjárfestingar og það átti að gera ákveðna hluti til þess að koma atvinnulífinu í gang. Það hefur ekki reynst ganga eftir af því að það er enginn vilji til þess í ríkisstjórninni að gera þessa hluti. Það er engin samstaða og það þýðir að það er enginn vilji til þess í ríkisstjórninni að gera þessa hluti.

Hvað á það að þýða t.d. að vera með tiltekin verkefni inni í hagvaxtarspá ársfjórðung eftir ársfjórðung og að hæstv. fjármálaráðherra sé hér að guma sig af hagvaxtarspá þegar hann veit að kannski stærsti liðurinn í þeim spám eru verkefni sem flokkur hans er algjörlega á móti, kemur bara ekki til mála að verði að veruleika? Hvernig stendur á því að menn komist upp með að halda slíku fram? Það er alveg óskiljanlegt.

Nú er að koma þingsályktunartillaga út af rammaáætluninni og við höfum verið að bíða nokkuð lengi eftir því en þá er það skoðun ríkisstjórnarinnar að ekki sé hægt að fara í neinar framkvæmdir þar fyrr en búið er að samþykkja þær frá Alþingi. Það þýðir það að hér gerist ekkert fyrr en einhvern tíma á næsta ári. Þá er ég bara að tala um stóru framkvæmdirnar en ég er líka að segja, og það finnst mér skipta svo miklu máli í þessari umræðu og ég held að við þurfum að leggja dálítið áherslu á það, að það sem við þurfum hvað mest á að halda er að lítil og meðalstór fyrirtæki fari að hafa trú á því að hér sé rekstrarvænlegt umhverfi. Þegar þau eru bara í samkeppni við fyrirtæki sem eru komin til bankanna blæs ekki byrlega þannig að þar ganga hlutirnir allt of hægt. Ég held að það hafi líka mjög (Forseti hringir.) lamandi áhrif á efnahagslífið.