139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:51]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér hafa þótt yfirlýsingar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra alveg óskiljanlegar og ekki síst finnst mér það þegar hann kýs að fara í viðtöl við erlenda fjölmiðla og lýsa því yfir að íslenska krónan sé mikið böl og það þurfi endilega að losna við hana sem allra fyrst fyrir utan það að vilja ekki ræða hvernig hún hefur þó reynst gegnum tíðina með þeim göllum sem hún svo sannarlega hefur haft. Við vitum að við verðum að hemja hana, við verðum að ná að hemja hana en hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur bara ekkert svar við því hvað hann ætlar að bjóða í staðinn fyrir þessa ómögulegu krónu sem hann er alltaf að tala um, af því að ekki getur hann boðið upp á evruna. Hún er ekki í boði fyrir hann.

Hvert er þá planið? Það sem við fáum út úr þessu er auðvitað það að trúverðugleiki okkar bíður endalaust hnekki og þeir fjárfestar sem þó líta til Íslands lesa þessar fréttir og fá líka þýðingu á því sem hér er sagt. Er trúlegt að menn hafi trú á því að hér eigi að fjárfesta þegar þeir sem stýra landinu eru á því að það sé ekkert umhverfi hér til fjárfestinga vegna þess að gjaldmiðillinn sé ómögulegur? (Forseti hringir.) Svona getur þetta ekki gengið.