139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar til að ræða málefni Landhelgisgæslu Íslands við formann allsherjarnefndar. Eins og flestir vita stendur Landhelgisgæslan mjög höllum fæti vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar. Hún býr við mikinn fjárskort og getur tæplega sinnt sínu lögbundna hlutverki.

Nú gerðist það síðast í sumar að engin þyrla Gæslunnar var til reiðu þegar útkall barst og þurfti því að senda einkaþyrlu á slysstað. Mér finnst þetta mjög skrýtið í ljósi þess að Landhelgisgæslan hefur það hlutverk að halda hér uppi öryggi og sjá um mengunarslys og síðast en ekki síst að vera stóri björgunaraðilinn fyrir sjómenn á hafi úti. Nú er vetur í vændum og við vitum öll hvað það þýðir, mikla áhættu fyrir sjómenn að vera á hafi úti sem skapar mikið öryggisleysi fyrir þá atvinnugrein.

Mig langar til að spyrja formann allsherjarnefndar: Á að gera gangskör að því að laga til í rekstri ríkisins þannig að hægt sé að leggja meira fjármagn til Gæslunnar til að hún geti sinnt sínu lögbundna hlutverki? Hvernig sér ríkisstjórnin þetta fyrir sér? Verður það áfram háð mikilli óvissu hvernig Gæslan er rekin? Við vitum til dæmis að Gæslan sendi frá sér bæði flugvélina og skipið til starfa annars staðar. Er þess að vænta að aukið fjármagn verði lagt til Landhelgisgæslunnar?

Mig langar til að leggja þessar spurningar fyrir formann allsherjarnefndar, sér í lagi vegna þess að við sátum í fyrravetur saman í hóp sem átti að fjalla um málefni Landhelgisgæslunnar. Ekkert kom út úr þeim starfshópi svo ég viti til og hann hefur óformlega verið lagður niður. Ég óska eftir að fá svör við þessum spurningum.