139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að ekkert hafi komið út úr þeirri vinnu sem þingmenn lögðu á sig ásamt starfsmönnum Landhelgisgæslunnar og þáverandi dómsmálaráðuneytis. Í kjölfarið hóf Landhelgisgæslan meðal annars að leita fyrir sér á erlendum vettvangi með leigu á tækjum sínum og það með ágætisárangri. Þannig hafa ein þyrlan og flugvélin verið notaðar á Miðjarðarhafi og ef ég man rétt skilaði það um það bil 800 millj. kr. tekjum á síðasta ári. Það munar um þá fjárhæð.

Það er ekki, eins og hv. þingmaður komst að orði, vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar sem Landhelgisgæslan býr við þröngan kost. Það er einfaldlega vegna stöðunnar í efnahagsmálum, stöðu ríkissjóðs. Allar okkar sameiginlegu stofnanir búa við þröngan fjárhag og það er kannski ástæða til að upplýsa hv. þingmann um að það árar ekkert sérstaklega vel hjá ríkissjóði Íslands og hefur ekki gert undanfarin tvö eða þrjú ár. Þannig er það. Vonandi getum við sett meira fjármagn í þennan rekstur.

Það sem mér finnst skipta miklu máli í þessu er að í samræmi við þingsályktunartillögu tíu þingmanna Suðurkjördæmis á að ráðast í flutning Landhelgisgæslunnar á Suðurnesin. Það er ótvírætt að þar er til reiðu húsnæði og það fer ekki á milli mála að til lengri tíma litið fæli það í sér stórkostlegan sparnað fyrir ríkissjóð, skilaði öflugri og betri rekstri fyrir Landhelgisgæsluna og hún yrði betur í stakk búin til að sinna sínu mikilvæga öryggishlutverki. Og það á ekki bara við um þá sem stunda sjóinn. Hátt í helmingur útkalla Landhelgisgæslunnar er vegna slysa inni í landi þannig að það skiptir máli fyrir landsmenn alla að vel sé á þessum málum haldið og að við séum með fjórar þyrlur til taks í þessum efnum. Því miður getum við það ekki núna en það er einfaldlega vegna þess að við erum blönk.