139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Sitt sýnist hverjum um áætlanir Kínverjans Huangs Nubos á Grímsstöðum á Fjöllum. Nubo hefur lýst því yfir að hann sækist hvorki eftir nýtingu auðlinda á landsvæðinu né er hann áhugasamur um virkjun Jökulsár á Fjöllum.

Við yfirferð á stöðu lagarammans má sjá að viðkomandi þarf leyfi fyrir þeim framkvæmdum sem hann hefur lýst áhuga á. Bygging hótels eða annarra mannvirkja þarf að vera í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélaganna og eru háðar afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Nýting vatns umfram það sem telst til heimilis eða bústarfa er háð sérstöku nýtingarleyfi. Orkustofnun gefur út það leyfi en jafnframt þarf viðkomandi leyfi frá skipulagsyfirvöldum, framkvæmdaleyfi, leyfi frá heilbrigðisyfirvöldum o.fl.

Þá gildir hér á landi ströng löggjöf um nýtingu jarðhita og jarðefna en ég ítreka að viðkomandi aðili hefur lýst því yfir að hann hafi ekki áhuga á nýtingu jarðhita, vatns eða jarðefna.

Frú forseti. Eigandi jarðarinnar þarf opinber leyfi fyrir flestum þeim framkvæmdum sem hann hefur lýst yfir og fjallað hefur verið um opinberlega. Við þetta má svo bæta að ríkið mun eftir sem áður eiga 25% af jörðinni í óskiptri sameign sem þýðir að allar meiri háttar ákvarðanir þarf að bera undir ríkisvaldið.

Mitt mat er að stjórnvöld og viðkomandi fjárfestir eigi að funda og finna út í sameiningu með hvaða hætti verður farið í uppbyggingu á Grímsstöðum á Fjöllum og með hvaða hætti landið verði skipulagt til móttöku ferðamanna. Um leið á að gæta að því að við uppbyggingu verði leitað til íslenskra aðila, svo sem hönnuða eða verktaka, því að ég held að það sé mjög mikilvægt að freista þess að reyna að leysa þetta mál með hagsmuni atvinnugreinarinnar í huga og þessa landsvæðis á norðausturhorninu sem telst kalt í atvinnulegu tilliti.

Ég spyr hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur hvort hún telji ekki vert að leita lausna í málinu, að nú eigi að hugsa lausnamiðað og stuðla að innspýtingu erlends fjármagns í ferðaþjónustuna, (Forseti hringir.) inn til landsins og um leið að byggja upp innviði í þessari vaxandi atvinnugrein.