139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi. Því miður hefur umræðan um þessa fjárfestingu verið afar neikvæð. Hún hefur reyndar verið um margt merkileg. Ég spyr mig af hverju í ósköpunum ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur ekki nú þegar komið fram og sagt að hún sé reiðubúin til viðræðna við þennan erlenda fjárfesti. Ég held að það séu viðbrögðin sem allir þeir sem lýsa áhuga á að fjárfesta og byggja upp ferðaþjónustu hér á landi eigi að fá frá íslensku ríkisstjórninni.

Við erum að tala um land sem hefur verið til sölu í meira en tvö ár. Við erum að tala um mann sem er reiðubúinn að fjárfesta gríðarlega í ferðaþjónustunni og þær fyrirætlanir ganga alveg í takt við fyrirætlanir sveitarfélagsins Norðurþings á þessu svæði. Hann hefur lýst því yfir, eins og komið hefur fram í dag, að hann muni afsala sér vatnsréttindum. Hann ætlar að efla innviði svæðisins. Hann leggur ríka áherslu á náttúruvernd og það sem mér finnst mikilvægast er að hann hefur ítrekað lýst því yfir að hann vilji vinna þetta í samvinnu við heimamenn. Ég veit að því miður duga ekki góð orð hv. þm. Magnúsar Orra Schrams, það þarf vilja frá ríkisstjórninni í heild sinni. Nú þarf annaðhvort forsætisráðherra eða fjármálaráðherra að stíga fram og segja að þau séu reiðubúin að koma til viðræðna við þennan erlenda fjárfesti. Þetta skiptir svæðið gríðarlega miklu máli sem hefur því miður verið skilið eftir (Forseti hringir.) hvað varðar atvinnuuppbyggingu þessarar ríkisstjórnar.