139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það er sjálfsagt mál að skoða skattkerfið bæði hér á landi og annars staðar og bera saman. Ég óttast ekki að við Íslendingar verðum undir í þeim samanburði ef það er markmið í sjálfu sér að vera lægst. Staðreyndin er sú að innan OECD-landanna er skatthlutfall á Íslandi tiltölulega lágt.

Varðandi auðlegðarskattinn sérstaklega held ég að þingmaðurinn gæti líka skoðað það að víða í Evrópu er einmitt kallað eftir því að skattar verði frekar hækkaðir ef eitthvað er. Meira að segja á Ítalíu þar sem forsætisráðherrann Berlusconi ræður ríkjum, sem kannski er hv. fyrirspyrjanda kunnugur, er verið að tala um að leggja á sérstakan auðlegðarskatt.

Staðreyndin er sú að auðlegðarskatturinn er lagður á hreina eign umfram um það bil 100 millj. kr. hjá þeim sem telja fram saman. Frítekjumarkið í auðlegðarskatti er 75 millj. kr. fyrir einhleyping og 100 millj. kr. hjá hjónum eða samsköttuðum. Hlutfallið er síðan 1,5%. Í einföldu máli má þá segja að auðlegðarskatturinn fyrir hjón er 15 þús. kr. á hverja milljón í hreinni eign umfram 100 millj. kr. Ég verð að segja eins og er, hæstv. forseti, að ég tel það ekki skattpíningu. Ég tel það sanngjarna hlutdeild þeirra sem búa við best kjör til að kosta samneysluna sem er nauðsynleg í samfélagi okkar. Ég tel að þessi skattur sé sanngjarn og réttlátur og að það eigi ekki að stíga þau skref að taka hann til baka, miklu frekar að þróa hann áfram.