139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[11:36]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Frú forseti. Það virðist vera sem framtíðarsýn Vinstri grænna, að mati hv. þingmanns, sé ansi lík framtíðarsýn forustu Sjálfstæðisflokksins, a.m.k. hvað varðar að það ber ekki að halda áfram með umsóknina um aðild að ESB og að það eigi að fara varlega í að hleypa hér inn fjárfestum utan EES-svæðisins.

En ég ætla ekki að gera þetta mál eða erlenda fjárfestingu að aðalefni andsvarsins. Mig langar örlítið til að ræða betur um lausn hv. þingmanns á gjaldeyrishöftunum. Hann talar um að það eigi að afnema gjaldeyrishöftin, helst sem allra fyrst, og að það afnám gæti jú falið í sér gengislækkun og það yrði auðvitað erfitt fyrir skuldsett heimili að sjá lánin hækka ef slík gengislækkun verður vegna þess að verðtryggð lán taka á sig allar verðhækkanir. Gengislækkun þýðir hækkun á verðlagi innan lands þar sem 35% af matarkörfunni eru innfluttar vörur.

Ég er ekki sammála mati hv. þingmanns um að tafarlaust afnám á gjaldeyrishöftunum muni ekki íþyngja skuldsettum heimilum sem nú þegar ná ekki endum saman. Ég vil því fá nánari útlistun hjá hv. þingmanni á því hvernig hann ætlar að tryggja að fólk, sem er núna komið með skuldsettar eignir sem nema frá 90% og upp í 110% af verðmæti eignarinnar, haldi áfram að greiða af skuldum sínum eftir afnám hafta með hans aðferð.