139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[11:58]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er með meira krefjandi spurningum sem ég hef fengið hér á Alþingi að útskýra stefnu Samfylkingarinnar, sérstaklega í því samhengi sem hv. þingmaður setti fram, að hér í morgun var komið fram með miklum lúðraþyt um að opna landið og auka fjárfestingar í atvinnulífinu og svo hálftíma síðar rætt um mjög metnaðarfull áform um akkúrat hið gagnstæða, þ.e. að loka landinu í gjaldeyrishöftum fram til ársloka 2015, það nær jafnvel til ársbyrjunar 2016.

Ég hef dálitlar áhyggjur af því og mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann deili þeim áhyggjum með mér að í ljósi þess að árið 2008 voru sett gjaldeyrishöft hér á landi sem áttu að gilda í tvö ár var árið 2010 ákveðið að herða gjaldeyrishöftin og framlengja og nú er komið árið 2011 og það á sem sagt að lengja þau enn frekar í til ársloka 2015. Í ljósi þess að stjórnvöld hafa ekki staðið við þær áætlanir sem settar hafa verið fram í fortíðinni hafa menn þá einhverja ástæðu til að ætla, sérstaklega miðað við hversu langt fram í tímann þetta er, að það verði eitthvað frekar farið að þessari áætlun? Mega menn ekki búast við því að undir árslok 2015 verði lengt enn frekar í höftunum?

Eins og við þekkjum eftir kreppuna upp úr 1930 þá stóðu hér yfir gjaldeyrishöft, sem áttu bara að vera tímabundin, í fimm eða sex áratugi. Það er því meira en að segja það að vinda ofan af því ástandi sem nú er í gildi. Ég held að það verði alltaf erfiðara og erfiðara eftir því sem ástandið varir lengur.

Ég spyr því hv. þingmann hvort hann deili þeim áhyggjum með mér, og þá kannski sérstaklega ef óbreytt stjórnarfar verður við lýði, að við horfum þá til enn frekari og hertari gjaldeyrishafta til (Forseti hringir.) áratuga héðan í frá.