139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:03]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisverð umræða um afstöðu Samfylkingarinnar sem virðist vera tvískipt og fara eftir því um hvað er verið að ræða hverju sinni, alla vega þegar kemur að erlendum fjárfestingum í landinu og gjaldeyrishöftunum. Mitt svar við því hvers vegna Samfylkingin er tvískipt eða talar tveimur tungum er sú að hún er búin að átta sig á því að stefna hennar eða lausn hennar á gjaldmiðilskreppunni sem felst í því að taka upp evru gengur ekki upp. Hún reynir að fela það með stuðningi sínum við innleiðingu gjaldeyrishafta sem eru mun strangari en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar innleiddu í nóvember 2008.

Frú forseti. Ég er ekki komin hingað til að ræða sérstaklega Samfylkinguna og afstöðu hennar í ýmsum málum heldur afstöðu Framsóknarflokksins eða tillögur Framsóknarflokksins til afnáms gjaldeyrishafta. Framsóknarflokkurinn lagði fram eins og við öll vitum mjög framsækna og góða efnahagsáætlun vorið 2009 sem ég nota hvert tækifæri til að hæla vegna þess að þar var m.a. lagt til að farið yrði í leiðréttingu á skuldum heimilanna, almenna leiðréttingu sem fæli í sér 20% yfirfærslu, en þar var jafnframt talað um að aflétta höftunum eða sérstaklega að koma út aflandskrónunum í gegnum uppboðsmarkað. Nú er þessi áætlun AGS og ríkisstjórnarinnar um afnám haftanna þannig að það er komið á uppboðsmarkaði sem hefur ekki virkað vegna þess að lífeyrissjóðirnir eru ekki koma hér inn með sitt erlenda fjármagn. Ég velti því þá fyrir mér hvað framsóknarþingmenn telja ráðlegt að gera ef uppboðsmarkaðurinn virkar ekki.